„Það er gríðarlegt áfall fyrir fólk að lögregla sé gerð að skotmarki með þessum hætti,“ segir Peter Gudmundsson, kjörræðismaður Íslands í Dallas, þar sem fimm lögreglumenn voru skotnir til bana á fimmtudagskvöld.
Árásin var gerð meðan á mótmælum stóð vegna lögregluofbeldis. Auk þeirra sem létust særðust sex í árásinni. Árásarmaðurinn var drepinn í átökum við lögreglu, en hann sagðist vera reiður vegna drápa lögreglumanna á svörtu fólki og að hann vildi drepa hvíta lögreglumenn.
Peter býr aðeins nokkra kílómetra frá miðbænum, þar sem skotárásin var gerð, en hann var í fríi í Massachusetts þar til í dag. „Ég var ekki á svæðinu en fólk sem ég þekki lýsti vettvanginum eins og átakasvæði í Írak eða Afganistan en ekki Texas,“ segir hann.
Mannfallið í árásinni var það versta hjá lögreglunni síðan hryðjuverkaárásin var framin á Tvíburaturnana 11. september árið 2001. Byssumaðurinn hóf skothríðina þegar mótmælagangan, þar sem lögregluofbeldi var mótmælt, var tekin að leysast upp.
Frétt mbl.is: Fimm lögreglumenn myrtir í Dallas
„Skotárásir eru ekki óalgengar í þessu landi og maður heyrir annað slagið af því að einhver hafi verið skotinn til bana í tengslum við fíkniefnamál, en skipulögð fjöldamorð af þessu tagi eru eitthvað allt annað,“ segir Peter. „Það er algjör hryllingur.“
Árásin átti sér stað skammt frá Dealey Plaza í Dallas, þar sem John F. Kennedy, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, var myrtur árið 1963. Dallas er ein stærsta borgin í Texas og telja íbúar borgarinnar um 1,2 milljónir manna.
Að sögn Peters búa aðeins um 30–40 Íslendingar í Dallas, en hann segir fáa Íslendinga ferðast þangað. „Þetta er ekki túristastaður, heldur frekar viðskiptamiðstöð.“
Á síðasta ári var gerð skotárás á höfuðstöðvar lögreglunnar í Dallas en skot árásarmannsins þá hæfði engan.
Frétt mbl.is: Mikil sorg í Dallas
Frétt mbl.is: Gekk um með riffil og gaf sig fram