„Eins og átakasvæði í Írak“

Lögreglumenn í Dallas.
Lögreglumenn í Dallas. AFP

„Það er gríðarlegt áfall fyrir fólk að lögregla sé gerð að skotmarki með þessum hætti,“ segir Peter Gudmundsson, kjörræðismaður Íslands í Dallas, þar sem fimm lögreglumenn voru skotnir til bana á fimmtudagskvöld.

Árásin var gerð meðan á mótmælum stóð vegna lögregluofbeldis. Auk þeirra sem létust særðust sex í árásinni. Árásarmaðurinn var drepinn í átökum við lögreglu, en hann sagðist vera reiður vegna drápa lögreglumanna á svörtu fólki og að hann vildi drepa hvíta lögreglumenn.

„Algjör hryllingur“

Peter býr aðeins nokkra kílómetra frá miðbænum, þar sem skotárásin var gerð, en hann var í fríi í Massachusetts þar til í dag. „Ég var ekki á svæðinu en fólk sem ég þekki lýsti vettvanginum eins og átakasvæði í Írak eða Afganistan en ekki Texas,“ segir hann.

Mannfallið í árásinni var það versta hjá lög­regl­unni síðan hryðju­verka­árás­in var fram­in á Tví­bura­t­urn­ana 11. sept­em­ber árið 2001. Bys­sumaður­inn hóf skot­hríðina þegar mót­mæla­gang­an, þar sem lög­reglu­of­beldi var mót­mælt, var tek­in að leys­ast upp.

Peter Gudmundsson, kjörræðismaður Íslands í Dallas.
Peter Gudmundsson, kjörræðismaður Íslands í Dallas. ljósmynd/Facebook

Frétt mbl.is: Fimm lög­reglu­menn myrt­ir í Dallas

„Skotárásir eru ekki óalgengar í þessu landi og maður heyrir annað slagið af því að einhver hafi verið skotinn til bana í tengslum við fíkniefnamál, en skipulögð fjöldamorð af þessu tagi eru eitthvað allt annað,“ segir Peter. „Það er algjör hryllingur.“

Árás­in átti sér stað skammt frá Dealey Plaza í Dallas, þar sem John F. Kenn­e­dy, fyrr­ver­andi for­seti Banda­ríkj­anna, var myrt­ur árið 1963. Dallas er ein stærsta borg­in í Texas og telja íbú­ar borg­ar­inn­ar um 1,2 millj­ón­ir manna.

Að sögn Peters búa aðeins um 30–40 Íslendingar í Dallas, en hann segir fáa Íslendinga ferðast þangað. „Þetta er ekki túristastaður, heldur frekar viðskiptamiðstöð.“

Á síðasta ári var gerð skotárás á höfuðstöðvar lögreglunnar í Dallas en skot árásarmannsins þá hæfði engan. 

Frétt mbl.is: Mikil sorg í Dallas

Frétt mbl.is: Gekk um með riff­il og gaf sig fram

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert