Lögreglumennirnir sem voru myrtir

Kona leggur blómvönd við lögreglubíl í Dallas. Dóttir hennar fylgist …
Kona leggur blómvönd við lögreglubíl í Dallas. Dóttir hennar fylgist með. AFP

Lögreglumennirnir fimm sem voru myrtir í Dallas seint á fimmtudagskvöld af fyrrverandi hermanni voru á aldrinum 32 til 55 ára. Sá yngsti, Patrick Zamarripa, starfaði áður í bandaríska sjóhernum og fór þrívegis til Íraks. Hann gekk til liðs við lögregluna í Dallas fyrir fimm árum og fékk nýverið það verkefni að sinna löggæslu í miðborginni á reiðhjóli.

„Hann var mjög gjafmildur einstaklingur. Hann gaf þér síðasta dollarann sinn ef hann var með hann í vasanum og þú þurftir á honum að halda,“ sagði faðir hans, Rick Zamarripa, við CNN.

Var stödd á hafnaboltaleik

Kærastan Zamarripa, Kristy Villasenor, var á hafnaboltaleik ásamt tveggja ára dóttur þeirra, Lyncoln, þegar skotárásin hófst. Villasenor hafði nýlega sett ljósmynd af sér og dóttur þeirra saman á leiknum á Facebook og merkt manninn sinn á myndina.

David Brown, lögreglustjórinn í Dallas, grætur við minningarathöfn sem var …
David Brown, lögreglustjórinn í Dallas, grætur við minningarathöfn sem var haldin í borginni vegna þeirra lögreglumanna sem voru myrtir. AFP

Sá fyrsti síðan 1989

Brent Thompson, 43 ára, var fyrsti lögreglumaðurinn í DART-lögreglusveitinni Dallas til að vera drepinn í starfi síðan sveitin var stofnuð árið 1989. Hann gekk til liðs við deildina árið 2009.

„Hann var frábær lögreglumaður,“ sagði yfirmaður DART við ABC News. Thompson var áður í bandaríska sjóhernum og hafði einnig sem verktaki umsjón með þjálfun lögreglumanna í Írak og Afganistan. Hann var sex barna faðir og hafði kvænst á nýjan leik tveimur vikum fyrir dauða sinn.

Vissi af hættunum

Michael Krol var fertugur lögreglumaður frá Michigan. Hann gekk til liðs við lögregluna í Dallas árið 2007.

Móðir hans segir að hann hafi elskað starf sitt. „Hann vissi af hættunum sem fylgdu starfinu en hlífði sér aldrei við skyldum sínum sem lögreglumaður.“

Almenningur vottaði aðstandendum hinna látnu samúð sína í Dallas.
Almenningur vottaði aðstandendum hinna látnu samúð sína í Dallas. AFP

Elskaði starfið sitt

Michael Smith er fyrrum hermaður sem gekk til liðs við lögregluna í Dallas 1989. Hann var tveggja barna faðir. „Hann elskaði starfið sitt, félagana í lögreglunni og eiginkonu sína og börn,“ sagði Vanessa Smith fjölskylduvinur í viðtali við Dallas Morning News. „Ég get ekki ímyndað mér hvað eiginkona hans og dóttir eru að ganga í gegnum núna. Þetta er eitthvað sem maður býst ekki við. Þetta fer alveg með mann.“

Börnin skilja ekki hvað gerðist

Lorne Ahrens var 48 ára frá Kaliforníu. Hann hafði starfað í lögreglunni í Dallas í 14 ár. Eftir að hafa eytt nóttinni á sjúkrahúsi sneri eiginkona hans, Kartina Ahrens, heim til sín til að segja börnum þeirra, átta og tíu ára, að pabbi þeirra hefði dáið. „Þau skilja þetta ekki enn þá. Þau vita ekki hvað þau eiga að gera,“ sagði hún við Dallas Morning News.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert