Morðin „snerta þjóðarsálina“

Alríkislögreglumenn rannsaka vettvang morðanna á fimm lögreglumönnum í Dallas.
Alríkislögreglumenn rannsaka vettvang morðanna á fimm lögreglumönnum í Dallas. AFP

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, segir að morðin á fimm lögregluþjónum í Dallas á fimmtudagskvöld hafi snert sál þjóðarinnar. Í útvarpsávarpi hvatti hann bandarísku þjóðina til að sýna samstöðu. Bandaríkjamönnum beri skylda til að standa gegn óréttlæti en fólk verði að styðja lögregluna.

Í fjarveru Baracks Obama, forseta sem er á leið heim til Bandaríkjanna eftir að hafa verið viðstaddur leiðtogafund NATO-ríkja í Póllandi, tók Biden að sér útvarpsávarp í kjölfar morðanna í Dallas og dráps lögreglumanna á tveimur blökkumönnum í vikunni.

„Þeir sem voru drepnir og særðir voru að gæta öryggis þeirra sem voru að mótmæla á friðsamlegan hátt kynþáttamisrétti í dómskerfinu. Þeirra sem gengu gegn þess konar hræðilegum myndum sem við sáum frá St. Pauli og Baton Rouge og við höfum séð of oft annars staðar, af of mörgum blökkumönnum sem hafa glatað lífinu,“ sagði Biden og vísaði til þess þegar hvítir lögreglumenn drápu blökkumennina Alton Sterling í Louisiana og Philando Castile í Minnesota í vikunni.

Varaforsetinn sagði að allir hefðu þá skyldu að láta í sér heyra um misbresti í dómskerfinu á sama hátt og það væri skylda allra að standa með lögreglunni sem verndar samfélagið á hverjum degi.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert