Árásarmaðurinn sem skaut fimm lögreglumenn til bana í Dallas hrökklaðist úr varaliði Bandaríkjahers í Afganistan sakaður um kynferðislega áreitni í garð annars hermanns. Eftir að hann sneri heim er hann sagður hafa hallast að öfgahópum blökkumanna.
New York Times segir að Micah Johnson, sem var 25 ára gamall, hafi snúið heim úr hernum í fyrra. Í Afganistan hafi kona í sömu herdeild sakað hann um kynferðislega áreitni. Hún hafi sóst eftir nálgunarbanni á Johnson og sagt hann þurfa á geðhjálp að halda.
Johnson þjónaði í hernum frá 2009 til 2015 og var sendur til Afganistan sem hluti af herdeild verkfræðinga árið 2013. Þar sérhæfði hann sig sem múrari og smiður. Ekkert bendir til þess að hann hafi tekið þátt í bardögum eða hafi særst. Lögmaður hersins sem kom fram fyrir hönd Johnson segir að herinn hafi verið búinn að hefja ferli til að leysa Johnson frá skyldum.
Eftir að hann kom heim virðist hann hafa hallað sér að ýmsum hópum sem berjast fyrir réttindum blökkumanna, þar á meðal Nýju svörtu pardusunum, ef marka má Facebook-notkun hans. Þau samtök hafa verið kölluð stærstu skipulögðu herskáu samtök blökkumanna sem standa fyrir gyðingahatur og kynþáttahyggju.
Annar hópur sem Johnson lét sér líka við á Facebook var Varnarbandalag afrískra Bandaríkjamanna (African American Defense League) en leiðtogi þeirra hefur ítrekað kallað eftir ofbeldi í garð lögreglu.
Lögreglan segir að við húsleit á heimili Johnson í gær hafi fundist sprengiefni, skotheld vesti, rifflar, skotfæri og dagbækur um bardagakænsku.
Johnson var drepinn þegar lögreglan sendi vélmenni með sprengju á hann aðfaranótt föstudags eftir skotárásina. Lögreglan segir að hann hafi verið einn að verki.