Rændu grandlausa Pokémon-spilara

Pokémon Go hefur náð ævintýralegum vinsældum þrátt fyrir að leikurinn …
Pokémon Go hefur náð ævintýralegum vinsældum þrátt fyrir að leikurinn hafi komið út í síðustu viku. Skjáskot/Youtube

Minna en vika er liðin frá því að farsímaleikurinn Pokémon Go kom út en þrátt fyrir það hefur fjöldi furðulegra mála komið upp sem tengjast leiknum.

Spilarar í nokkrum löndum, m.a. Bandaríkjunum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi, gátu sótt leikinn í farsíma sína frá og með miðvikudeginum í síðustu viku og hefur leikurinn vægast sagt slegið í gegn. Svo miklar eru vinsældirnar að framleiðandinn, Niantic Labs, hefur frestað alþjóðlegri útgáfu leiksins vegna fjöldans sem þeir gera ráð fyrir að sæki leikinn þegar hann kemur út.

The Guardian greindi frá því í morgun að lögreglan í Missouri-ríki Bandaríkjanna hafi til rannsóknar glæpagengi sem notfærði sér staðsetningarbúnað leiksins til þess að hafa uppi á spilurum í Pokémon-leit, en leikurinn gengur m.a. út á að ganga um borgir og bæi í því sem kalla mætti stafræna fjársjóðsleit.

Lögreglunni barst tilkynning um fjögur ungmenni á aldrinum 16 til 18 ára í svartri BMW-bifreið á bílastæði apóteks í borginni O'Fallon í Missouri. Ungmennin voru vopnuð og leikur grunur á að þau hafi notfært sér Pokémon-leikinn til þess að sjá hvert spilarar leiksins stefndu, þar sem þau biðu eftir grandlausum Pokémon-spilurunum og rændu þá.

Nintendo hefur biðlað til fólks að fara varlega við Pokémon-leitina og vera meðvitað um umhverfi sitt. Fjölmörg lögregluembætti hafa sent út sams konar tilkynningu, m.a. lögreglan í Ástralíu sem bað fólk um að hætta ekki lífi sínu við spilamennskuna og eins að gerast ekki brotlegt við lög, en tilkynnt hefur verið um að minnsta kosti eitt tilfelli í Ástralíu þar sem spilari fór óvelkominn inn í heimahús sem hann hélt að væri kirkja þar sem hann hugðist sækja sér einn Pokémon.

Frétt mbl.is: Leitaði að Pokémon­um – fann lík

Hlutabréf hafa hækkað mikið í Nintendo vegna vinsælda leiksins og spilamennskan hefur leitt til líkfundar líkt og mbl.is greindi frá í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert