Sjálfsmorðstilraun Manning staðfest

Chelsea Manning, áður Bradley Manning, afplánar 35 fangelsisdóm fyrir gagnastuld.
Chelsea Manning, áður Bradley Manning, afplánar 35 fangelsisdóm fyrir gagnastuld. BRENDAN SMIALOWSKI

Lögfræðingar uppljóstrarans Chelsea Manning hafa staðfest að hún hafi reynt að fremja sjálfsmorð í síðustu viku, en áður hefur verið greint frá því að hún hafi verið flutt á sjúkrahús í kjölfar sjálfsmorðstilraunar. Manning var sakfelld fyrir að hafa stolið gögnum frá bandarískum yfirvöldum og lekið þeim til Wikileaks.

Lögfræðingar Manning hafa, að sögn fréttavefjar BBC, sakað Bandaríkjaher um að brjóta á rétti hennar til einkalífs, með því að greina frá því að hún hafi verið send á sjúkrahús. Í tilkynningu hersins var ekki gefið upp hver ástæða sjúkrahúsvistarinnar væri, en fjölmiðlar voru fljótir að tengja dvölina sjálfsmorðstilraun.

Chel­sea Manning var áður þekkt sem Bra­dley Mann­ing, en í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér, eftir að hún var dæmd til 35 ára fangelsisvistar vegna gagnastuldarins, til­kynnti hún að hún væri kona. Manning sagðist þá hafa upp­lifað sig sem konu í lík­ama karl­manns frá barnæsku og fór fram á horm­ónameðferð í fang­els­inu. Hún afplánar dóm sinn í karlafangelsi.

Í fréttatilkynningum frá lögfræðingum Manning segir: „Chelsea ákvað að binda enda á líf sitt í síðustu viku. Hún hefði kosið að heilsufarsupplýsingar sínar væru einkamál og að hún geti  þess í stað einbeitt sér að því að ná bata. Hún veit að margir vilja vita hvernig henni líður og hún vill að allir viti að hún er undir stöðugu eftirliti í fangelsinu og býst við að svo verði næstu vikurnar.“

Twitter-skilaboð voru send frá Manning í gær sem sögðu: „Mér líður vel. Ég er fegin að vera á lífi. Takk fyrir umhyggju ykkar. Ég mun jafna mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert