Stjórnvöld í Austurríki ætla nú að taka yfir húsið sem Adolf Hitler fæddist í árið 1889. Er það gert til þess að hindra að nýnasistar geri húsið að pílagrímsstað.
Eldri kona sem á húsið hefur ítrekað neitað tilboðum þeirra sem vilja kaupa það en það stendur í bænum Braunau am Inn.
Ekki eru allir á sama máli um hvað gera eigi við húsið. Innanríkisráðherra Austurríkis vill rífa það en aðrir segja að húsið henti vel undir safn eða jafnvel matvöruverslun og að það myndi gera það „ópólitískt“.
Ákvörðun um framhald hússins er orðin nauðsynleg til þess að það verði ekki notað sem samkomu- eða hyllingarstaður nýnasista en það hefur gerst ítrekað síðustu ár. Hefur fólk þá safnast saman við húsið og kallað ýmis einkunnarorð nasista að sögn innanríkisráðherra Austurríkis, Wolfgangs Sobotka. „Ég sé fyrir mér að húsið verði rifið,“ sagði hann í dag.
Að mati aðgerðarsamtakanna Documentation Centre of Austrian Resistance myndi það að rífa húsið ekki leysa nein vandamál en heimsóknum fólks að húsinu hefur fjölgað síðustu ár. Formaður samtakanna, Gerhard Baumgartner, telur að verði húsið rifið myndist þá bara „Hitlerstorg“ eða „Hitlersgarður“ þar sem nýnasistar myndu koma saman.
„Það þarf að gera staðinn algjörlega ópólitískan og hafa eitthvað þarna sem enginn vill láta taka mynd af sér fyrir framan,“ sagði Baumgartner og bætti við að slökkvistöð eða matvöruverslun gæti þjónað þeim tilgangi.
Húsið hefur verið tómt frá árinu 2011 en áður var þar starfrækt vinnustofa fyrir fatlaða. Austurrísk yfirvöld hafa leigt húsið frá árinu 1972 og borga um 4.800 evrur á mánuði fyrir það eða jafnvirði 655.000 íslenskra króna.
Hitler bjó í húsinu í aðeins nokkrar vikur áður en fjölskylda hans flutti í annað húsnæði. Fjölskyldan flutti úr bænum þegar Hitler var þriggja ára.