Cameron kveður Downing-stræti

AFP

Fjölmargir söfnuðust saman fyrir utan Downing stræti 10, híbýli forsætisráðherra Bretlands, í dag til þess að fylgjast með þegar David Cameron og fjölskylda hans yfirgáfu húsið sem hefur verið heimili þeirra í rúm sex ár.

Cameron gekk út úr húsinu ásamt eiginkonu sinni Samantha og börnum þeirra þremur en þau voru á leið til Buckingham-hallar þar sem hann mun biðjast lausnar.

Cameron ávarpaði viðstadda stuttlega í rokinu fyrir utan Downing-stræti. Þar sagði hann meðal annars að það hafi verið „mesti heiður ævi hans“ að vera forsætisráðherra Bretlands og að hann vonaðist til þess að velgengni landsins héldi áfram með nýjum forsætisráðherra.

Sagði hann að þegar hann tók við í maí 2010 hafi helsta markmiðið verið að snúa efnahagnum við og það hafi tekist. Sagðist Cameron sannfærður um að eftirmaður hans, Theresa May, yrði sterkur leiðtogi og óskaði henni góðs gengis í viðræðum við Evrópusambandið.

Þá þakkaði hann öllum þeim sem hafa skrifað honum síðustu sex árin og óskuðu honum velfarnaðar.

„Ég vil einnig þakka börnunum mínum, en Downing-stræti hefur verið þeim dásamlegt heimili,“ sagði Cameron. Bætti hann við að eitt sinn hafi fimm ára dóttir hans Florence klifrað ofan í kassa sem hann var að pakka ofan í fyrir vinnuferð erlendis og bað hann um að taka sig með sér. „Það verða ekki fleiri kassar,“ sagði Cameron. 

Þá þakkaði hann eiginkonu sinni og sagði hana „magnaða eiginkonu, móður og viðskiptakonu.“

Eftir að hafa rætt við fjölmiðla í um fjórar mínútur, stillti fjölskyldan sér upp í myndatöku áður en þau föðmuðust öll. Þá gengu þau inn í bifreiðar sem biðu eftir þeim. Er gert ráð fyrir að leiðin liggi til Elísabetar drottningar í Buckingham-höll.

Þá tísti Cameron í dag, líklegast í síðasta skipti sem forsætisráðherra.

Cameron-hjónin og börn þeirra.
Cameron-hjónin og börn þeirra. AFP
Fjölskyldan utan við Downing-stræti.
Fjölskyldan utan við Downing-stræti. AFP
AFP
Fjölskyldan skellti í hópfaðmlag áður en haldið var til hallarinnar.
Fjölskyldan skellti í hópfaðmlag áður en haldið var til hallarinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka