Að minnsta kosti sjötíu manns eru taldir hafa látist og um eitt hundrað særst eftir að hvítri vöruflutningabifreið var ekið inn í mannfjölda í frönsku borginni Nice.
Franska sjónvarpsstöðin BFM TV greindi frá þessu.
Innanríkisráðuneyti Frakklands hefur staðfest að árásarmaðurinn sé látinn. Lögregluteymi sem fer með rannsókn hryðjuverka hefur nú tekið rannsóknina yfir.
Innanríkisráðuneytið segir að engin gíslataka hafi átt sér stað á vettvangi. Bílstjórinn hafi ekið á fólkið og svo verið skotinn til bana af lögreglunni. Talsmaður ráðuneytisins segir að nú sé verið að rannsaka hvort að maðurinn var einn á ferð eða hvort hann átti sér samverkamenn. Fréttir herma að vörubíllinn hafi verið fullur af vopnum.
Ökumaðurinn er sagður hafa aukið hraðann þegar hann nálgaðist mannfjöldann, sem var að fagna þjóðhátíðardegi Frakka á götunni Promenade des Anglais.
Eitt vitni sagði að hann hefði ekið nokkra kílómetra og keyrt á fólk á sama tíma.
Hann fór síðan út úr bifreiðinni og hóf skothríð, að sögn annars sjónarvotts í viðtali við AP-fréttastofuna.
„Það var blóðbað á veginum. Lík alls staðar,“ sagði sjónvarvotturinn.
Dagblaðið Le Parisien sagði að maðurinn hefði skipst á skotum við lögregluna. Samkvæmt upplýsingum blaðsins var árásarmaðurinn skotinn til bana.