Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vissi af því árið 2010 að bílaframleiðandinn Volkswagen hefði svindlað á mengunarprófum sínum vegna díselvéla.
Þetta kemur fram í skjölum sem þýska blaðið Spiegel hefur undir höndum. Einnig er leitt að því líkum að þýsk stjórnvöld hafi vitað af svindlinu, þegar árið 2012, og að fundarhöld hafi farið fram á milli stjórnvalda og framkvæmdastjórnar ESB.
Uppljóstrað var um svindlið í september á síðasta ári.
Uppi varð fótur og fit þegar í ljós kom að Volkswagen hafði komið fyrir sérstökum hugbúnaði í bílum sínum til að svindla á útblástursprófum. Sumar tegundir bílaframleiðandans losa allt að fjörutíu sinnum meira af mengandi efnum en leyfilegt er.
Fyrirtækið hefur beðist afsökunar á svindlinu og náði í síðasta mánuði samkomulagi við bandaríska eigendur bifreiða þess um greiðslu 15 milljarða dollara í skaðabætur.