„Ég hélt áfram að öskra á hann. Ég veifaði honum og reyndi að fá hann til þess að hætta. Reyndi að segja honum að það væru mjög margir undir vörubílnum látnir nú þegar,“ sagði Egyptinn Nadar el Shafei í samtali við breska ríkisútvarpið í nótt.
Hann varð vitni að árásinni í frönsku borginni Nice í gærkvöldi þegar stórum vörubíl var ekið á mikinn mannfjölda sem var að fagna þjóðarhátíðardegi Frakka. Að minnsta kosti 84 eru látnir eftir árásina. Tugir til viðbótar liggja særðir á sjúkrahúsum.
Shafei lýsti því hvernig hann reyndi að ræða við ökumann vörubílsins og fá hann til þess að stöðva bílinn. Hann gerði sér þá ekki grein fyrir að um hryðjuverk hafi verið að ræða, heldur hélt hann að ökumaðurinn hefði einfaldlega misst stjórn á bílnum.
„Hann veitti engum í kringum bílinn athygli og allt í einu sá ég hann taka upp eitthvað sem mér fannst líkjast farsíma. Ég hélt hann myndi hringja á sjúkrabíl, vegna slyssins, en það virðist hafa verið rangt, því hann tók upp byssu og fór að skjóta á lögregluna,“ bætti hann við.
Staðfest er að ökumaðurinn hafi skotið á vegfarendur og lögregluþjóna úr glugga bílsins. Lögreglan skaut hann loks til bana eftir að hann hafði ekið um strandgötuna og myrt tugi manns.