Mótorhjól elti flutningabílinn

Þýskur blaðamaður, sem varð vitni að hryðjuverkaárásinni í Nice í gærkvöldi, segist hafa séð mann á mótorhjóli elta flutningabílinn, sem ók í gegnum mannþröngina með þeim afleiðingum að 84 manns létu lífið, og reyna að opna bílhurðina. 

Það fór ekki betur en svo að maðurinn féll af mótorhjólinu og lenti undir bílnum.

„Ég stóð á svölum við strandgötuna og sá hvernig fólk þar fagnaði. Skyndilega var trukki ekið í gegnum mannhafið,“ sagði Richard Gutjahr í samtali við AFP.

Ökumaðurinn hefði ekið nokkuð hægt, raunar mjög hægt, og maður á mótorhjóli elt hann.

„Maðurinn reyndi að fara fram úr trukknum og opna bílhurðina, en hann féll af mótorhjólinu og endaði undir honum.“

Þá hefði ökumaður flutningabílsins allt í einu aukið hraðann mjög og ekið yfir fólk á um tveggja kílómetra löngum kafla.

„Á næstu fimmtán til tuttugu sekúndum heyrði ég skothvelli frá nokkrum byssum. Ég veit ekki hver skaut að hverjum.“ Í kjölfarið hefði mikill ótti gripið um sig meðal viðstaddra og fólk hlaupið í allar áttir.

„Þeir sem gátu bjargað sjálfum sér hlupu inn á hótel og leituðu skjóls þar.“

„Strax á eftir sá ég tólf lík og þá var þegar orðið ljóst að þau yrðu fleiri,“ bætti hann við.

Margir reyndu að stöðva för ökumannsins, meðal annars með því að hanga utan á bílhurðinni. Þá stökk einn á bílinn og reyndi þannig að koma ökumanninum úr jafnvægi. Sjónarvottar segja að hann hafi sveigt til og frá á götunni til þess að reyna að myrða sem flesta.

Auk þess skaut hann á vegfarendur og lögreglumenn úr glugga bílsins, áður en lögreglan skaut hann til bana.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka