Samfélagsmiðlastjarna drepin í heiðursmorði

Sjálfboðaliðar flytja lík Baloch af heimili hennar.
Sjálfboðaliðar flytja lík Baloch af heimili hennar. AFP

Pakistönsk samfélagsmiðlastjarna hefur verið myrt af bróður sínum í því sem virðist vera svokallað „heiðursmorð“. Lögregla í Punjab-héraði greindi frá þessu í dag.

Qandeel Baloch var 26 ára gömul. Hún hafði nýlega valdið nokkrum usla í heimalandinu með því að birta að mati margra óviðeigandi myndir af sér á samfélagsmiðlum, m.a. þar sem hún sést við hliðina á múslimaklerki. Að sögn lögreglu var hún kyrkt til dauða.

Svokölluð „heiðursmorð“, þar sem konur eru drepnar af ættingjum sínum, eru nokkuð algeng í Pakistan.

Baloch var fræg á landsvísu í Pakistan fyrir að birta djarfar og stundum grófar myndir, myndbönd og ummæli á netinu. Foreldrar hennar sögðu í samtali við dagblaðið The Express Tribune að bróðir hennar hafi kyrkt hana eftir að þau rifust í gærkvöldi.

Líkið fannst þó ekki fyrr en í morgun og eru foreldrar hennar núna í haldi lögreglu.

Baloch hafði farið frá Punjab yfir til Karachi þar sem hún óttaðist um öryggi sitt að sögn lögreglu.

„Bræður hennar höfðu beðið hana um að hætta að stunda fyrirsætustörf,“ sagði ættingi fjölskyldunnar í samtali við The Express Tribune. Í blaðinu kemur jafnframt fram að bróðir hennar Wasim hafi verið í uppnámi vegna mynda sem hún setti á netið og hafði hótað henni. Að sögn lögreglu er hann á flótta undan réttvísinni.

Kvikmyndagerðarkonan Sharmeen Obaid-Chinoy, sem hlaut Óskarsverðlaun fyrr á árinu fyrir heimildarmyndina A Girl in the River: The Price of Forgiveness, sem fjallar um heiðursmorð í Pakistan, staðfesti í dag morðið.

„Mér finnst eins og engin kona sé örugg í þessu landi, fyrr en við setjum fordæmi og þar til við sendum menn sem drepa konur í fangelsi,“ sagði hún í samtali við AFP.

Qandeel Baloch á blaðamannafundi í Lahore í síðasta mánuði.
Qandeel Baloch á blaðamannafundi í Lahore í síðasta mánuði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert