Tyrknesk þyrla lenti í Grikklandi

Tyrkneska þyrlan á flugvellinum í Grikklandi.
Tyrkneska þyrlan á flugvellinum í Grikklandi. AFP

Tyrknesk herþyrla hefur lent í Grikklandi með átta menn um borð sem hafa óskað eftir hæli í landinu, samkvæmt upplýsingum grísku lögreglunnar.

Þyrlan, af tegundinni Black Hawk, sendi neyðarkall til yfirvalda við flugvöllinn í Alexandroupolis sem er í norðurhluta Grikklands.

Sjö af þeim sem voru um borð voru í herbúningum og talið er að allir hafi þeir tekið þátt í valdaránstilrauninni í Tyrklandi.

Tyrkneskur hermaður við Taksim-torgið í Istanbúl.
Tyrkneskur hermaður við Taksim-torgið í Istanbúl. AFP

Tyrknesk stjórnvöld hafa krafist þess að Grikkir framselji mennina til Tyrklands.

„Við höfum óskað eftir því að Grikkir framselji landráðsmennina átta eins fljótt og mögulegt er,“ sagði Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.

Samkvæmt háttsettum starfsmanni í varnarráði Grikkja verður þyrlan send aftur til Tyrklands „þegar í stað“.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, lýsti í morgun yfir stuðningi sínum við „lýðræðislega kjörin“ stjórnvöld í Tyrklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert