Baulað var á Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, þegar hann mætti á minningarathöfn um fórnarlömbin í Nice í dag. 84 létu lífið þegar maður ók vörubifreið inn í mannmergð sem hafði verið að fylgjast með flugeldasýningu í borginni á fimmtudaginn.
Fólk hrópaði ókvæðisorð að Valls eins og „morðingi“ og „segðu af þér“ áður en Valls tók þátt í mínútu þögn til minningar um þá sem létu lífið.
Fyrr í dag gagnrýndi Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, stjórnvöld fyrir að mistakast að tryggja öryggi íbúa landsins. Nú hafa verið sendir hermenn á vinsæla ferðamannastaði í landinu öllu en rannsókn á árásarmanninum stendur enn yfir. Hann lét lífið í byssubardaga við lögreglu.
Sarkozy hefur jafnframt kallað eftir því að öllum erlendum ríkisborgurum í Frakklandi með tengsl við Ríki íslams verði vísað úr landi.
Innanríkisráðherra Frakka, Bernard Cazeneuve, segir að ekkert bendi enn til þess að Bouhlel hafi tengst hryðjuverkasamtökum. Að mati stjórnvalda varð hann öfgamaður fyrst nýlega. Þá sagði Cazeneuve að þó svo að Ríki íslams hefði lýst yfir ábyrgð á árásunum þyrfti ekki að vera að Bouhlel hefði starfað með hryðjuverkasamtökunum.