Greiða skaðabætur vegna MH17

Minningarathöfn vegna fórnarlambanna fór fram í gær.
Minningarathöfn vegna fórnarlambanna fór fram í gær. AFP

Flugfélagið Malaysia Airlines hefur komist að samkomulagi við aðstandendur flestra fórn­ar­lambanna sem lét­ust, þegar farþegaþota flug­fé­lags­ins, MH17, var skot­in niður í Úkraínu árið 2014, um greiðslu skaðabóta. Þetta segir Veeru Mewa, lögmaður aðstandendanna.

Þotan var skotin niður fyrir tveimur árum, 17. júlí 2014, með rússneskri BUK-flaug í lofthelgi Úkraínu. Allir um borð, 298 manns, létu lífið.

Hollenskir fjölmiðlar greindu frá því í gærkvöldi að samkomulag hefði náðst um greiðslu skaðabóta en báðir deiluaðilar, þ.e. flugfélagið og aðstandendur, samþykktu að gæta trúnaðar um fjárhæð bótanna og efnisatriði samkomulagsins.

Athöfn til minningar um fórnarlömbin fór fram í nágrenni Schiphol-flugvallarins í Amsterdam í Hollandi í gær.

Ábyrgð flug­fé­laga vegna flug­slysa var ákveðin á ráðstefnu í Montreal árið 1999 þar sem niðurstaðan varð að há­marks­ábyrgð flug­fé­laga væri 143 þúsund evr­ur á fórn­ar­lamb.

Það fer eftir aðstæðum hjá hverjum og einum hversu háar skaðabæturnar verða. Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að þær geti orðið allt að 109 þúsund evrur í þessu tilviki.

Frestur til þess að leggja fram skaðabótakröfu rann út í gær.

Í októ­ber greindi alþjóðleg rann­sókn­ar­nefnd frá því að þotan hefði verið skot­in niður af svo­kölluðu BUK-flug­skeyti sem var fram­leitt í Rússlandi. Þá var flug­skeyt­inu skotið frá svæði sem var und­ir stjórn upp­reisn­ar­manna.

Nefnd­in vildi þó ekki segja að það hafi verið upp­reisn­ar­menn sem skutu þot­una niður og þá hafa Rúss­ar ávallt neitað aðild að mál­inu. Hol­lensk rann­sókn­ar­nefnd mun birta niður­stöður sín­ar í haust.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert