Sagður hafa átt 73 ára gamlan elskhuga

84 létu lífi í árás Bouhlel.
84 létu lífi í árás Bouhlel. AFP

Lögregla í Frakklandi rannsakar nú ástalíf mannsins sem ók vörubifreið inn í hóp fólks og drap 84 í Nice í Frakklandi á fimmtudaginn. Franskir fjölmiðlar greina frá því að  árásarmaðurinn, Mohamed Bouhlel, hafi átt í ástarsambandi við 73 ára gamlan mann.

Samkvæmt frétt Sky News hafa franskir rannsóknarlögreglumenn m.a. skoðað gögn úr farsíma Bouhlels, sem virðist hafa verið mikill vaxtarræktarmaður, og yfirheyrt þá sem hann var mest í sambandi við. Þar á meðal er karlkyns eldri borgari sem franskir fjölmiðlar segja hafa verið „hans helsta elskhuga“.

Þá hefur tölva í eigu árásarmannsins verið rannsökuð og kom í ljós að Bouhlel skoðaði ítrekað áróðursheimasíður og myndbönd af afhöfðunum.

Konan ætlaði með börnin á flugeldasýninguna

Því hefur líka verið haldið fram að fyrrverandi eiginkona Bouhlels hafi ætlað að fara með börnin þeirra þrjú að horfa á flugeldasýningu í tilefni þjóðhátíðardags Frakka kvöldið sem árásin var gerð en eins og kunnugt er keyrði Bouhlel vörubílnum inn í hóp fólks sem hafði horft á sýninguna. Fyrrverandi eiginkonan hætti við að fara á flugeldasýninguna á síðustu stundu vegna „persónulegra ástæðna“.

Þá hefur lögregla greint frá því að bæði eiginkonan og móðir hennar hafi verið fórnarlömb Bouhlels sem beitti þær heimilisofbeldi.

„Ég vissi nákvæmlega hvað var að fara að gerast

Einn lögreglumannanna sem skutu Bouhlel í bílnum eftir að hann ók inn í mannmergðina hefur nú komið fram í fjölmiðlum og lýst því þegar hann sá árásarmanninn draga upp vopn. „Hann var stopp. Framhliðin á bílnum var gjöreyðilögð og slökkt á vélinni,“ sagði lögreglumaðurinn sem kaus að koma ekki fram undir nafni.

„Ég vissi nákvæmlega hvað var að fara að gerast. Ég sá skugga við hlið ökumannsins. Hann var með vopn. Ég miðaði á höfuðið, það er það eina sem ég sá. Hann hvarf en birtist síðan aftur. Ég skaut tvisvar til viðbótar og hann féll aftur fyrir sig.“

Mohamed Lahouaiej-Bouhlel hafði horft á afhöfðunarmyndbönd á tölvu sem fannst …
Mohamed Lahouaiej-Bouhlel hafði horft á afhöfðunarmyndbönd á tölvu sem fannst á heimili hans. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert