35 ára karlmaður hefur verið handtekinn fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn þremur 16 ára stúlkum á opnunarhátíð knattspyrnumótsins Gothia Cup í Gautaborg í Svíþjóð í gærkvöldi.
Maðurinn á að hafa káfað á stúlkunum og kysst þær. Stúlkurnar gátu svo bent lögreglunni á manninn og var hann handtekinn og færður í yfirheyrslur. Verið er að ákveða hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir manninum.
Atvikið á að hafa átt sér stað undir lok opnunarhátíðarinnar þegar um 50 þúsund keppendur sem staddir voru á opnuninni á Ullevi-leikvangnum í Gautaborg voru í þann mund að yfirgefa völlinn.
„Það er hræðilegt þegar svona gerist, en það er erfitt að hafa stjórn á öllu sem gerist í svona mannþröng á opinberum stað,“ segir Tore Lund, talsmaður Gothia Cup.
Sjá frétt Aftonbladet.