31 árs franskur kranabílstjóri, sem hengdi sig á flutningabíl árásarmannsins í Nice til að reyna að stöðva miskunnarlausa för hans í gegnum mannfjöldann á fimmtudag, segist hafa brugðist við af algjörri eðlishvöt.
Alexandre, sem bað fréttaveitu AFP um að greina ekki frá eftirnafni sínu, var að yfirgefa fjöldann sem safnast hafði við strandlengjuna til að fagna þjóðhátíðardeginum þegar hann kom auga á flutningabílinn.
„Hann varð á vegi mínum þegar ég var að fara frá flugeldasýningunni á hjólinu mínu,“ segir Alexandre. „Ég hafði sagt við sjálfan mig að ég myndi fara yfir göngugötuna til að taka hjólastíginn meðfram sjónum, svo ég gæti farið hraðar heim.
En þegar ég var að fara yfir götuna þá sá ég fólk flýja í ofboði undan vörubílnum. Þá henti ég hjólinu mínu niður.“
Jafnaldri hans, Mohamed Lahouaiej Bouhlel, hafði þá þegar skilið eftir sig slóð eyðileggingar, þar sem hann hafði ekið flutningabílnum í kröppum hlykkjum á miklum hraða til að reyna að keyra yfir sem flesta.
Alexandre náði þá með ótrúlegum hætti taki á hurðarhúninum bílstjóramegin.
Hinn túníski þriggja barna faðir kom í kjölfarið auga á hann og hóf um leið að leita að einhverju innan bílstjóraklefans.
„Hann var að leita að byssunni sinni,“ segir Alexandre.
Aðeins augnabliki síðar hafði Bouhlel fundið byssuna og miðaði henni beint að Alexandre, sem um leið sleppti takinu á húninum.
„Hvað sem ég gæti hafa gert, þá er líf mitt mér mikilvægt.“
Einmitt á því andartaki fann hann mótorhjól þeysast fram hjá sér. Þar var á ferð önnur hetja næturinnar, sem enginn kann enn nokkur deili á.
Frétt mbl.is: Mótorhjól elti flutningabílinn
Þegar lögregla hafði loks hendur í hári Bouhlel og skaut hann til bana, hafði hann drepið 84 manns, þar á meðal tugi barna, og slasað um 300 til viðbótar.