Martröð fræga fólksins

Starfsmaðurinn endurræsti lykilorð samstarfsamanna sinna og notaði aðgang þeirra til …
Starfsmaðurinn endurræsti lykilorð samstarfsamanna sinna og notaði aðgang þeirra til að finna kreditkortaupplýsingar um frægt fólk, sem hann seldi svo til Séð og Heyrt í Danmörku. AFP

Búið er að gefa út ákærur yfir átta einstaklingum í stóra Séð og Heyrt málinu í Danmörku. Málið snýst um að starfsmenn Séð og Heyrt útveguðu stolnar kreditkortaupplýsingar um frægt fólk í landinu til þess að geta staðsett það og náð nýjustu fréttum og myndum af fólkinu. Á meðal hinna frægu sem fylgst var með notkuninni hjá voru Joachim Danaprins, leikararnir Mads Mikkelsen og Casper Christensen auk fjölda stjórnmálamanna.

Málið hefur vakið mikla athygli í Danmörku enda er sagan reifara líkust. Tímaritið birtir fréttir af fína og fræga fólkinu.Eftir að ritstjórinn Henrik Qvortrup tók við ritstjórnarstólnum fór blaðið að bjóða almenningi 10 þúsund danskra krónur í greiðslu fyrir slúður eða upplýsingar um frægt fólk. 

Skáldsaga varð kveikjan að þessu öllu saman

Málið hófst með útgáfu sáldsögu eftir höfundinn og blaðamanninn Ken B Rasmussen, Livet, det forbandede. Bókin átti að koma út þann 29. apríl 2014 og fjallaði í raun og veru um störf blaðsins Séð og Heyrt. Þar kom fram að blaðið hefði innanbúðarmann sem byggi yfir kreditkortaupplýsingum fræga fólksins. 

Qvortrup neitaði fyrst fyrir að sagan ætti sér stoð í raunveruleikanum. Nokkrum dögum síðar birti dagblaðið BT tölvupóst sem sýndi að Qvortrup væri einn gerenda í málinu. 

Danska Séð og Heyrt.
Danska Séð og Heyrt.

Séð og Heyrt sendi í kjölfarið sjö starfsmenn blaðsins í tímabundið leyfi á meðan á rannsókn málsins stóð. Málið óx og óx í fjölmiðlum og síðar bárust fregnir af því að blaðið hefði einnig haft innanbúðarmenn í hjá flugfélaginu SAS sem veitti upplýsingar úr farþegaskrám og hjá Ríkisspítalanum sem veitti upplýsingar um sónarmyndatökur fræga fólksins.

Með því að búa yfir kreditkortaupplýsingunum gátu blaðamenn Séð og Heyrt staðsett fræga fólkið og mætt á staðinn og náð myndum og fréttum. 

Lögreglan kafaði ofan í málið og framkvæmdi húsleit hjá Aller Media, útgáfufyrirtæki Séð og Heyrt. Það reyndist þó vandasamt að rannsaka málið enda ljóst að margar upplýsingar í tölvum starfsmanna fyrirtækisins væri verndað með tilliti til heimildarmanna blaðsins. Leyfi fékkst þó hjá Hæstarétti til að saumfara tölvurnar. Heildargögnin sem lögreglan fór yfir voru 13 terabæt.

Upplýsingar um 163 fræga einstaklinga

Nú hefur ákæran yfir hinum ákærðu í málinu verið birt. Þar kemur fram að starfsmaður tölvufyrirtækisins hafi stolið kreditkortaupplýsingum um að minnsta kosti 163 fræga einstaklinga og framselt upplýsingar um 135 þeirra til Séð og Heyrt. Í 31 skipti eyddi hann aðgangi annarra starfsmanna að upplýsingunum án heimildar til þess að geta notað aðganginn sjálfur. Í 67 skipti notaði hann aðgang annarra starfsmanna til að framkvæma alls 523 leitir að kreditkortafærslum hjá frægu fólki.

Fylgst var með kortanotkun Joachims Danaprins í brúðkaupsferðinni hans.
Fylgst var með kortanotkun Joachims Danaprins í brúðkaupsferðinni hans. www.kongehuset.dk

Alls hlaut starfsmaðurinn greiðslur upp á að minnsta kosti 7,8 milljónir íslenskra króna. Danskir fjölmiðlar telja að í málinu muni reyna á ákvæði í dönskum hegningarlögum um tölvuglæpi. Mun reyna á hvort hann hafi brotist inn í tölvukerfið eða villt á sér heimildir. Fari svo að hann verði dæmdur fyrir tölvubrot telja aðrir að hinir ákærðu í málinu gætu verið dæmdir fyrir aðild að tölvubrotinu. 

Margir starfsmenn ákærðir

Henrik Qvortrup hefur verið ákærður fyrir að hafa tekið við upplýsingum um brúðkaupsferð Joachims Danaprins árið 2008. Einnig er hann ákærður fyrir að hafa samið við heimildarmanninn innan kortafyrirtækisins um greiðslur til hans fyrir stolnar upplýsingar. 

Per Ingdal sem starfaði tímabundið sem ritstjóri Séð og Heyrt árið 2009 var ákærður fyrir að hafa vitað af samkomulaginu við heimildarmanninn án þess að gera neitt í því. Undir hans stjórn tók ritstjórn blaðsins við fjölmörgum stolnum upplýsingum og greiddi fyrir þær.

Kim Henningsen, ritstjóri Séð og Heyrt frá 2009-2013 er einnig ákærður fyrir að hafa vitað af samkomulaginu en ekkert gert til að stöðva það. Þá innleiddi ritstjórnin, undir hans stjórn, nýja aðferð við að greiða heimildarmönnum sínum. Undir hans stjórn greiddi blaðið um 300 þúsund danskar krónur til heimildarmannsins sem er stór hluti heildarupphæðarinnar.

Kim Bretov og Lise Bondesen störfuðu bæði sem fréttatjórar og aðstoðarfréttastjórar hjá tímaritinu. Þau vissu bæði af samkomulaginu til þeirra og þau komu þeim áfram til blaðamannanna sem unnu úr þeim fréttir. Þau hafna bæði ásökununum.

Ken B. Rasmussen starfaði sem blaðamaður á tímaritinu allann þann tíma sem samkomulagið við heimildarmanninn var í gildi. Hann var tengiliður heimildarmannsins hjá tímaritinu, lagði inn fyrirspurnir hjá honum og tók við upplýsingum. 

Kasper D. Kopping var blaðamaður á tímaritinu allann þann tíma sem samkomulagið var í gildi. Hann var blaðamaðurinn sem tók á móti upplýsingunum um brúðkaupsferð Joachims Danaprins. Síðar varð hann aðal tengiliður heimildarmannsins hjá tímaritinu. 

Formaður dönsku blaðamannasamtakanna segir í samtali við Berlingske Tidende að málið sé ótrúlegt á allann hátt. „Málið er fordæmalaust í sögu danskrar blaðamennsku. Allir eru á þeirri skoðun, við þar á meðal, að málið á sér ekkert fordæmi og er langt út fyrir öll velsæmismörk. ég býst við því að þetta verði mál sem blaðamenn framtíðarinnar munu læra um í blaðamennskunáminu sínu,“ segir Lars Werge.

Sjá frétt Politiken um ákærurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert