Franska þingið samþykkti seint í gærkvöldi að framlengja neyðarlög í landinu um hálft ár. Neyðarlögin voru sett á í Frakklandi í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París í nóvember í fyrra, þar sem 130 létu lífið.
Til stóð að fella neyðarlögin úr gildi á næstu dögum, en í kjölfar árásarinnar í Nice á Bastilludaginn, þar sem 84 manns fórust, var ákveðið að framlengja neyðarlögin.
Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, sagði Frakka þurfa að búa sig undir fleiri slíkar árásir þrátt fyrir auknar öryggisaðgerðir stjórnvalda. Sagði hann í ræðu sinni í þinginu að Frakkar yrðu að læra að lifa við þá ógn. „Þótt það sé erfitt að segja þetta, þá er það skylda mín að gera svo,“ sagði Valls.
„Það verða fleiri árásir og fleira saklaust fólk mun láta lífið. Við megum ekki venjast því, við megum aldrei venjast hryllingnum en við verðum að læra að búa við þessa ógn.“
Neyðarlögin veita lögreglu víðtækari heimildir til leitar og handtöku. Þau gilda til janúarloka 2017 og er þetta í fjórða sinn sem þingið samþykkir að framlengja neyðarástand í landinu.