Suðurafríska ákæruvaldið mun fara fram á að fangelsisdómurinn sem íþróttakappinn Oscar Pistorius hlaut fyrir að hafa banað unnustu sinni Reevu Steenkamp verði lengdur. Saksóknarar í málinu segja hinn sex ára dóm „sláandi vægan“.
Þegar refsingin lá fyrir fyrr í þessum mánuði sögðu lögmenn Pistorius að hann myndi ekki áfrýja niðurstöðunni, en mörgum þótti dómurinn of mildur.
Við ákvörðunina mat dómarinn í málinu, Thokozile Masipa, ýmsa þætti til refsilækkunar, m.a. þá fullyrðingu Pistorius að hann hefði talið að hann væri að skjóta á innbrotsþjóf.
Í yfirlýsingu frá ákæruvaldinu segir að refsingin sé ekki í neinu samræmi við þann glæp sem Pistorius var fundinn sekur um. Sem fyrr segir var íþróttamaðurinn dæmdur í sex ára fangelsi en lágmarksrefsing fyrir morð er 15 ára fangelsi.
Saksóknarar þurfa að sækja um heimild til að áfrýja málum sínum og verður það gert í dag.
Pistorius drap Steenkamp á heimili sínu á valentínusardag árið 2013. Hann skaut hana fjórum sinnum gegnum baðherbergishurð, en hefur ávallt haldið því fram að hann hefði talið sig vera að skjóta á innbrotsþjóf.