Mótorhjólamaðurinn í Nice er á lífi

Strandgatan í Nice.
Strandgatan í Nice. AFP

„Ég var tilbúinn að deyja til að stöðva hann,“ segir maðurinn sem ók á mótorhjóli á eftir og reyndi að hefta för Mohameds Lahouaiejs Bou­hlels sem ók á hundruð manna í Nice á Bastilludeginum, þjóðhátíðardegi Frakka hinn 14. júlí sl. 84 létust í árásinni.

Þar til núna hafði ekkert spurst til mótorhjólamannsins sem sást bruna á eftir vöruflutningabílnum kvöldið sem voðaverkið átti sér stað. Óttuðust margir að hann hefði látið lífið við hetjudáðina.

Franska dagblaðið Nice Matin hafði uppi á manninum sem er flugvallarstarfsmaður í borginni á sextugsaldri. Í viðtalinu er hann aðeins kallaður Franck. Franck ætlaði að horfa á flugeldasýninguna í mannfjöldanum ásamt eiginkonu sinni umrætt kvöld en þau voru sein á svæðið.

mbl.is

Þegar þau mættu heyrðu þau hróp og læti í bílnum. „Konan mín sagði mér að stoppa, það væri eitthvað ekki rétt. Þá sáum við fólk hlaupa í allar áttir eins og það væri að flýja eitthvað. Það var þá sem við sáum flutningabílinn,“ segir Franck.

Náði ekki að hleypa af skoti

Þegar flutningabíllinn ók fram hjá hjónunum brást Franck við af al­gjörri eðlis­hvöt. „Konan mín tók í höndina á mér og spurði hvert ég væri að fara. Ég stoppaði hjólið, hleypti henni af því, og gaf síðan allt í botn,“ segir Franck.

Hann náði fljótlega flutningabílnum og ákvað þá að keyra bifhjólinu á trukkinn. Við það datt hann af hjólinu en hann stóð upp og hljóp á eftir bílnum og náði honum. Stökk hann því næst upp á bílinn þar sem hann hékk á hurðinni.

Fjölmargir hafa lagt leið sína að ströndinni í Nice til …
Fjölmargir hafa lagt leið sína að ströndinni í Nice til að minnast þeirra sem létu lífið. AFP

„Ég veit ekki hvað ég var að gera, mér tókst að hanga á hurðinni,“ sagði Franck í samtali við franska dagblaðið. Gluggi flutningabílsins var opinn svo Franck kýldi bílstjórann af öllum lífs og sálar kröftum „aftur og aftur“ sagði hann.

Segir Franck bílstjórann þá hafa teygt sig í byssu og miðað á hann, en ekki tekist að hleypa af skoti. „Ég var tilbúinn að deyja til að stöðva hann. Hann kýldi mig þá með byssuskaftinu og ég féll af bílnum,“ segir Franck, sem rifbeinsbrotnaði í átökunum en slapp að öðru leyti með minniháttar áverka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka