Um 11 sólarhringar eru nú síðan síðast sást til Emilie Meng, 17 ára stúlku frá Suður-Sjálandi í Danmörku. Umfangsmikil lögregluleit hefur staðið yfir frá því að lýst var eftir henni og nú hefur lögreglan varpað fram tveimur kenningum. Annað hvort lenti hún í óhappi, eða eitthvað glæpsamlegt hefur átt sér stað.
Síðast sást til Emilie þar sem hún kvaddi tvær vinkonur sínar á lestarstöðinni í Korsør í Danmörku. Hún hafði verið úti að skemmta sér með vinkonum sínum og tók lestina heim til Korsør. Ætlaði hún að labba sjálf frá lestarstöðinni að heimili sínu um tveimur kílómetrum frá. Vinkonur hennar vildu taka leigubíl en hún vildi labba.
Hún skilaði sér aldrei heim. Lögreglan hóf þá umfangsmikla leit. Fleiri hundruð sjálfboðaliða hafa aðstoðað við leitina. Meðal annars hefur verið bankað á dyr í nágrenninu en allt kom fyrir ekki, og ekkert hefur spurst til hennar.
Lögreglan hefur fengið þó nokkur spor til að fylgja en ekkert hefur skilað árangri. Til dæmis er vitað að hún notaði Facebook um kvöldið eftir að hún kvaddi vinkonur sínar. Þá segist vitni hafa séð hana rölta frá lestarstöðinni um klukkan 5 um morguninn. Eftirlitsmyndavélar hafa líka sýnt að hún hefur ekki rölt aftur að lestarstöðinni og tekið lestina inn til Kaupmannahafnar eins og í upphafi var talið að hefði gerst, en hún hefur áður tekið lestina inn til Kaupmannahafnar vegna ástarsorgar sem hún hafði upplifað.
Eitt helsta spor lögreglunnar reyndist líka vera vitnisburður vitnis um að sést hefði til ungs pilts með stúdentshúfu í nágrenninu. Pilturinn með stúdentshúfuna gaf sig síðar fram til lögreglunnar en talið er að hann komi málinu ekkert við.
Facebook-hópur sem ber nafnið Missing People Denmark er hópur fyrir fólk sem hefur áhuga að að rannsaka mannshvörf í Danmörku. Fólk í hópnum hefur skipulagt eigin leitir að Emilie. Nýverið tilkynnti hópurinn að fulltrúar úr honum hefði fundið tvo „grunsamlega hluti“ í nágrenninu og að hlutunum hefði verið komið í hendur lögreglunnar. Samkvæmt heimildum dönsku dagblaðanna er um að ræða notaðan smokk. Ekki hefur þó fengist staðfest hvort smokkurinn komi mannshvarfi Emilie við.
Einnig hefur verið notast við þyrlur við leitina að Emilie. Hefur fjölskylda hennar nú lofað hverjum þeim sem hefur upplýsingar um hvarfið 40 þúsund danskar krónur, leiði upplýsingarnar til þess að málið upplýsist. Nú í dag sendi lögreglan frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem óskað var eftir upplýsingum um það hvort einhver hafi séð yfirgefna tösku á lestarstöðinni þar sem Emilie hvarf. Má því leiða líkur að því að hún hafi haft tösku meðferðis sem hún gæti hafa skilið eftir einhvers staðar.
Sjá frétt Berlingske.
Sjá frétt Verdens gang.