Rannsaka störf lögreglunnar í Nice

Strandgatan í Nice.
Strandgatan í Nice. AFP

Frönsk stjórnvöld hafa fyrirskipað rannsókn á störfum lögreglu og öryggisgæslu vegna voðaverkanna í frönsku borginni Nice fyrir viku.

Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, tilkynnti í morgun að sérstakur eftirlitsmaður lögreglunnar kæmi til með að stýra rannsókninni.

Stjórnmálamenn í Nice hafa harðlega gagnrýnt starfshætti lögreglunnar og sagt að öryggisgæslan um kvöldið hafi ekki verið viðunandi. Tugir þúsunda komu saman í Nice um kvöldið til þess að fagna þjóðhátíðardegi Frakka.

Eins og kunnugt er var stórum flutningabíl ekið inn í mannfjöldann með þeim afleiðingum að 84 manns létu lífið og hundruð særðust.

Eftirlitsmaðurinn mun meðal annars skoða hvernig svæðið var girt af vegna hátíðarhaldanna. Gagnrýnt hefur verið hvernig árásarmanninum, Mohamed Lahouaiej Bouhlel, tókst að aka inn á svæðið á stórum flutningabíl. 

Christian Estrosi, forseti Nice-svæðisins, fagnaði áformum franskra stjórnvalda, en hann hefur gagnrýnt frönsk stjórnvöld harðlega. Það sama má segja um Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseta Frakklands, sem sagði stjórnvöld hafa mistekist hrapallega að tryggja öryggi íbúa landsins.

Auk þess að rannsaka hvernig á því standi að Mohamed gat ekið bílnum inn á strandgötuna, sem var lokuð fyrir bílaumferð, mun eftirlitsmaðurinn jafnframt taka til skoðunar verkaskiptingu innan lögreglunnar, en hún þótti nokkuð óljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert