Dómstóll í Hong Kong sakfelldi í morgun stúdentaleiðtogann Joshua Wong fyrir aðild sína að mótmælum gegn kínverskum stjórnvöldum í september 2014.
Wong og tveir aðrir klifruðu yfir girðingar og komust inn í opinbera byggingu í Hong Kong 26. september 2014.
Aðgerðir þeirra leiddu af sér öldu mótmæla og fjöldagöngur sem stóði yfir í um tvo mánuði. Mótmælahreyfingin krafðist þess að stjórnvöld í Peking heimiluðu frjálsar kosningar um hver yrði leiðtogi Hong Kong.
Lögðu mótmælendur undir sig götur í viðskiptahverfinu í miðborg Hong Kong.
Joshua Wong vakti mikla athygli í mótmælunum með skörulegum ræðum og beinskeyttri gagnrýni á kínversk yfirvöld. Hann var aðeins fimmtán ára þegar hann stofnaði nemendahreyfingu árið 2012 til þess að berjast gegn áformum yfirvalda um að taka upp nýja og „þjóðræknislega“ námskrá í skólum Hong Kong til að styrkja tengslin við Kína. Tugir þúsunda nemenda tóku þátt í mótmælum hreyfingarinnar og þau urðu til þess að hætt var við námskrána.
Kínversk yfirvöld reyndu að ófrægja hann með ásökunum um að hann væri á mála hjá leyniþjónustu Bandaríkjanna.
Wong á nú hins vegar yfir höfði sér tveggja ára fangelsisdóm.
Helstu samstarfsmenn Wong í baráttunni, Alex Chow og Nathan Law, voru jafnframt sakfelldir í morgun fyrir aðild sína að mótmælunum.
Þeir voru allir leystir úr haldi gegn tryggingu, en þurfa að mæta aftur fyrir dómstól 15. ágúst næstkomandi. Verður þá refsing þeirra ákveðin.