„Ætti að vera skotinn á færi“

Qandeel Baloch.
Qandeel Baloch. AFP

Faðir pakistönsku samfélagsmiðlastjörnunnar Qandeel Baloch segir að skjóta ætti bróður hennar á færi.

Foreldrar systkinanna ræddu við BBC um náið samband þeirra við dóttur sína og reiðina gagnvart syninum sem svipti hana lífi.

Anwar Azeem, móðir Baloch, segir son sinn hafa misst vitið eftir að hafa verið strítt vegna framkomu Baloch á netmiðlum sem oft þótti djörf.

Bróðir Baloch viðurkenndi að hafa byrlað henni svefnlyf og svo kyrkt hana til bana fyrir að „vanvirða nafn Baloch-fjölskyldunnar“. Foreldrar hennar segja að hann hafi einnig byrlað þeim lyf kvöldið sem morðið var framið. „Við eiginmaður minn sofnuðum djúpum svefni. Við höfðum drukkið mjólk. Hún hafði verið blönduð deyfilyfjum,“ sagði frú Azeem. „Um morguninn kallaði ég á Qandeel í  morgunmat...en hún fór ekki á fætur.“

Hún fann lík dóttur sinnar og sá að „allt andlitið á henni var þakið marblettum, tunga hennar var svört, varir hennar voru svartar“ og grét.

„Við vorum móðir og dóttir, deildum öllum okkar sorgum og leyndarmálum. Hún sagði alltaf við mig: „Dóttir þín vinnur hörðum höndum, hún mun ná langt“,“ sagði hún.

Herra Azeem segir dóttur sína hafa verið sinn besta vin en lýsir syni sínum sem „brjáluðum“.

„Ég segi að það eigi að skjóta hann á færi. Hann kæfði litla barnið mitt,“ sagði hann við BBC. „Við vorum dópuð, sofandi uppi. Hún hlýtur að hafa æpt eftir okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert