Króatískur dómstóll hefur snúið niðurstöðu í máli gegn kardinála sem hlaut dóm fyrir að hafa unnið með nasistum í seinni heimsstyrjöldinni. Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að réttarhöldin yfir kardinálanum hefðu ekki verið sanngjörn.
Alojzije Stepinac, sem hefur m.a. verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki fordæmt ofsóknir á hendur Serbum og gyðingum, var höfuð kaþólsku kirkjunnar þegar seinni heimsstyrjöldin stóð yfir.
Júgóslavnesk yfirvöld dæmdu hann í 16 ára fangelsi fyrir að hafa unnið með stjórnvöldum í heimsstyrjöldinni, en þau voru hliðholl nasistum.
Í úrskurði dómstólsins í Zagreb, sem féll í dag, braut niðurstaðan í málinu gegn Stepinac gróflega gegn núverandi og þáverandi anda refsiréttarins. Markmiðið með réttarhöldunum er sagt hafa verið að ófrægja kardinálann og kaþólsku kirkjuna.
Stepinac varði 5 árum í fangelsi og var síðan settur í stofufangelsi. Hann lést árið 1960, 61 árs. Kardinálinn hefur verið tekinn í heilagra manna tölu en ekki gerður að dýrlingi.
Dómarinn í málinu nú sagði að fyrri réttarhöldinn hefðu verið pólitískur tilbúningur. Þau voru lengi ásteytingarsteinn í samskiptum stjórnvalda í Júgóslavíu og kaþólsku kirkjunnar.
Flestir króatar álíta Stepinac sem hetju og píslarvott vegna afstöðu hans í þágu sjálfstæðis landsins og staðfasta trú hans andspænis ofsóknum kommúnistastjórnarinnar. Árið 1992 ályktaði króatíska þingið um hinn „pólitíska dóm“ og fordæmdi hann.
Nærri 90% króatísku þjóðarinnar eru kaþólsk.