Átakanleg frásögn frá München

Frá München í dag.
Frá München í dag. AFP

Fréttaritari New York Times, Rukmini Callimachi, segir frá reynslu sinni á twittersíðu sinni en hún er stödd í München.

Hefst saga hennar á flugvellinum í borginni, þar sem margir farþegar voru fastir vegna lokunar á vegum. Með hjálp flugvallarstarfsmanna tókst henni að ná í leigubíl og sagði bílstjórinn að sér hefði verið bannað að taka upp farþega af götunni þar sem óttast var að byssumenn gætu reynt að flýja með leigubíl.

Á bílastæði Schwabing-sjúkrahússins í München tekur við átakanleg sjón. Áhyggjufullur faðir með blóðhlaupin augu gengur þar í hringi.

Hann segir dóttir sína og son hafa verið í verslunarmiðstöðinni þegar skotárásin var gerð. Dóttirin hafi komist út en sonurinn sé ófundinn.

Þetta er fjórða sjúkrahúsið sem hann heimsækir í von um að finna son sinn, sem er 17 ára. Raunar vita ættingjar hans hvað kom fyrir og frænka hans dregur fréttaritarann afsíðis.

Þar er dreginn upp sími með myndum sem sýna táningsdreng liggjandi í blóði sínu. Þegar faðirinn nálgast setur hún símann niður.

Frænkan fékk myndirnar sendar og sýna þær soninn alvarlega slasaðan, ef ekki látinn. Hún sýnir föðurnum ekki myndirnar þar sem hann er hjartveikur.

Sjúkrabíll kemur aðvífandi og fjölskyldan þeysist inn á sjúkrahúsið. Dóttirin sem lifði af er þar komin, grátandi.

Fjölskyldan faðmar hana að sér. Sjúkraliðar hafa vafið hana inn í hvítt teppi, hugsanlega þar sem hún er í áfalli.

Að lokum leggur fréttaritarinn til að fólk taki sér tíma og sendi hlýja strauma til fjölskyldunnar og biðji fyrir því að sonurinn finnist á lífi svo þau verði sameinuð á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert