„Við vorum mörg sem misstum okkar heittelskuðu á þessum degi,“ sagði Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, við guðsþjónustu í dómkirkjunni í Osló í morgun í tilefni þess að fimm ár eru í dag liðin frá fjöldamorðunum í Osló og Útey.
Stoltenberg, sem er nú framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, var forsætisráðherra Noregs á þessum degi, 22. júlí 2011.
Ungliðahreyfing norska Verkamannaflokksins var við sumardvöl í Útey þegar Anders Behring Breivik gekk þar á land og hóf skothríð með þeim afleiðingum að 69 manns létu lífið. Átta til viðbótar létu lífið í sprengjuárás Breiviks á stjórnarráðsbyggingarnar í miðborg Oslóar fyrr um daginn.
Stoltenberg sagði að þrátt fyrir öll lífin sem týndust og alla sorgina hefðu voðaverkin einnig „dregið fram það besta“ í Norðmönnum. „22. júlí kallaði fram það sem við viljum vera,“ sagði hann. „Noregur, okkar litla land, hefur staðist þá prófraun.“
Frétt mbl.is: Norsk gildi höfðu sigur
Hann þakkaði öllum þeim sem hjálpuðu til þennan dag - starf þeirra hefði verið ómetanlegt. Hann tók þó fram að Norðmenn gætu dregið marga lærdóma af atburðunum og þá ekki síst því hvernig lögreglan brást við.
Markmiðið til framtíðar væri að koma í veg fyrir að önnur eins hryðjuverk gætu verið framin.
„Við stóðum saman. Jafnvel þótt árásirnar hefðu verið sársaukafullar, þá kölluðu þær fram svo margt gott í Norðmönnum,“ sagði hann.
Árásin hefði ekki verið „blind“. Hún hefði beinst gegn grunngildum norsks samfélags. „Þetta var árás á gagnkvæmt traust og umburðarlyndi í okkar samfélagi.“
Líkt og aðrir ræðumenn, þar á meðal Erna Solberg, forsætisráherra Noregs, minntist Stoltenberg á fleiri nýlegar hryðjuverkaárásir í heiminum, svo sem í París, Brussel, Ankara, Istanbúl, Orlando, Kabúl og Bagdad.
Stoltenberg sagði að barist yrði gegn hryðjuverkum, ekki aðeins með lögreglu- og hervaldi, „heldur líka með gildum okkar. Í Noregi urðu gildin okkar vörnin okkar.“
Hann sagði að baráttan ætti eftir að taka tíma, en með gildin okkar, svo sem lýðræði, gagnsæi og umburðarlyndi, að vopni ættum við eftir að bera sigur úr býtum.