Fimm ár eru í dag frá því að Anders Behring Breivik framdi mestu hryðjuverk í sögu Noregs. Þrátt fyrir að sárin séu ekki enn gróin, og grói seint, þá standa Norðmenn enn vörð um sömu grunngildi, um opnara og frjálslyndara samfélag, og þeir ákváðu að gera strax í kjölfar voðaverkanna.
Eftir því sem hryðjuverkaógnin breiðist út um allan heim velta æ fleiri þjóðir því fyrir sér hvernig bregðast eigi við voðaverkum sem þessum. Fæstar þeirra hafa valið leið Norðmanna: að svara hatrinu með ást og kærleik.
„Svar okkar er meira lýðræði, meira gagnsæi og meiri mannúð,” sagði Jens Stoltenberg, þáverandi forsætisráðherra Noregs, við norsku þjóðina aðeins skömmu eftir fjöldamorðin.
Norðmenn og heimsbyggðin öll voru sem steini lostin. Mannskæðari árás hafði ekki verið gerð á Noreg og Norðurlöndin öll frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Átta manns létu lífið í sprengjuárás á skrifstofu forsætisráðuneytisins í miðborg Óslóar og 69 manns, aðallega ungmenni, voru skotnir til bana í Útey, þar sem ungliðar norska Jafnaðarmannaflokksins dvöldu í árlegum sumarbúðum sínum.
Breivik sprengdi fyrst sprengjur í miðborginni og beindi þannig athygli lögreglunnar þangað. Á meðan sigldi hann, dulbúinn sem lögreglumaður, út í Útey og skaut á alla þá sem á vegi hans urðu.
75 mínútur liðu frá því að Breivik hóf skothríðina í Útey og þar til lögreglunni tókst að handsama hann. Þá voru liðnar þrjár klukkustundir og níu mínútur frá því að hann sprengdi fyrstu sprengjuna. 77 manns höfðu þá fallið fyrir hendi hans.
Paradís breyttist fljótt í helvíti.
Bandarísk stjórnvöld lýstu yfir „stríði gegn hryðjuverkum“ í kjölfar hryðjuverkaárásanna á tvíburaturnana í New York 11. september 2001. Viðbrögð norskra stjórnvalda voru hins vegar á allt aðra lund. Stoltenberg sagði að Normenn myndu „svara hatrinu með ást“.
Víðast hvar í Evrópu hefur umræðan í kjölfar mannskæðra voðaverka snúist fyrst og fremst um að herða eftirlit og fórna þannig borgaralegum réttindum fyrir aukið öryggi. Stoltenberg setti hins vegar tóninn fyrir það sem koma skyldi í áhrifaríkri ræðu aðeins nokkrum klukkutímum eftir að Breivik hafði látið til skarar skríða.
Hann brýndi fyrir norsku þjóðinni að láta ekki hryðjuverkin þagga niður í sér. Norðmenn ættu þess í stað að standa vörð um gildi sín um opnara samfélag. „Ef einn maður getur alið með sér svo mikið hatur, hugsið ykkur þá hversu mikinn kærleik við getum sýnt öll saman,“ sagði hann.
„Þjóðin er á margan hátt eins í dag og fyrir voðaverkin. Það er gott,“ segir Eskil Pedersen, fyrrum leiðtogi ungliðahreyfingar Jafnaðarmannaflokksins, en honum tókst að flýja Breivik þennan örlagaríka dag.
„Markmiðið með hryðjuverkum er að kollvarpa samfélögum. Þannig að það er sigur í því fólginn að við höfum ekki umturnað neinu og getum í dag sýnt okkar þekkjanlega andlit sem sterk og sameinuð þjóð,“ segir hann í samtali við AFP.
Ekki hafi verið lögfest nein hryðjuverkalög að hætti Bandaríkjanna og margra Evrópuþjóða og ekki mátti heldur sjá þungvopnaða hermenn á götum úti í kjölfar hryðjuverkanna.
Rúmu ári eftir hryðjuverkin fékk norska lögreglan slæma útreið í skýrslu sjálfstæðrar rannsóknarnefndar sem skipuð var til þess að fara ofan í saumana á viðbrögðum lögreglunnar við árásunum. Skýrslan var afar ítarleg, nokkur hundruð síður á lengd, en meginniðurstaðan var sú að lögreglan hafi ekki verið í stakk búin til þess að takast á við hryðjuverkaárás Breiviks. Nánast allt sem gat farið úrskeiðis fór úrskeiðis.
„Ég vil biðjast afsökunar fyrir hönd norsku lögreglunnar á því að hafa ekki náð Breivik fyrr,“ sagði Øystein Mæland lögreglustjóri.
Í kjölfarið var skipulag lögreglunnar tekið til gagngerrar endurskoðunar og má segja að norsku öryggissveitirnar hafi – þó í mörgum litlum skrefum – verið endurskipulagðar frá grunni. Markmiðið var skýrt: að koma í veg fyrir að önnur eins hryðjuverk kæmu fyrir.
Sjálfur var Breivik dæmdur í 21 árs fangelsi, með möguleika á framlengingu ef þörf krefur, eftir löng og fordæmalaus réttarhöld. Það er hámarksrefsing samkvæmt norskum lögum.
Fyrr í sumar áfrýjaði norska ríkið niðurstöðu dómstóls í Ósló sem taldi að einangrunarvist Breiviks í fangelsi fæli í sér „ómannúðlega meðferð“. Vakti niðurstaðan mikil og hörð viðbrögð.
Með öðrum orðum komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að sú meðferð sem Breivik var látinn sæta í fangelsinu, þar sem hann fékk til að mynda ekki að hitta aðra fanga, bryti í bága við þriðju grein mannréttindasáttmála Evrópu.
Margir furðuðu sig á þessari niðurstöðu og spurðu sig einfaldlega: Er hægt að brjóta á mannréttindum fjöldamorðingja eins og Breiviks?
Málið vakti samtal í norsku samfélagi um réttarríkið og þau grunngildi sem samfélagið byggist á. Því hefur verið lýst sem svo að reiði Norðmanna hafi fljótlega breyst í stolt þeirra yfir því að Breivik fengi notið grundvallarmannréttinda. Enda þótt glæpurinn hafi verið ólýsanlegur og hryllilegur, þá átti Breivik samt sem áður rétt á réttlátri málsmeðferð líkt og aðrir sakaðir menn. Eitt verður yfir alla að ganga. Þannig stóðst réttarríkið prófraunina.
Skömmu eftir hryðjuverkin bárust böndin að herskáum múslimum sem voru strax útmálaðir sökudólgar. Ein slík samtök lýstu meira að segja yfir ábyrgð á voðaverkunum og sögðu ástæðurnar vera þær að Norðmenn hefðu tekið þátt í hernaðaraðgerðum í Afganistan og jafnframt birt skopteikningar af Múhameð spámanni. Annað kom hins vegar fljótt á daginn. Árásarmaðurinn reyndist vera einn á ferð. Hann var hvítur og ljóshærður karlmaður á fertugsaldri, kristinnar trúar, fæddur og uppalinn í Noregi.
Hann sendi frá sér fimmtán hundruð blaðsíðna stefnuyfirlýsingu þar sem hann sagðist líta á sig sem arftaka musterisriddaranna, fornrar riddarareglu sem barðist með krossförunum gegn herjum múslima á miðöldum. Hann sagðist vera í stríði gegn fjölmenningarstefnu, sem væri mesta meinsemd Vesturlanda, og ætla að bjarga Evrópu frá múslimskum yfirráðum og menningarlegum marxisma. Það kann að útskýra af hverju ungmenni úr Verkamannaflokknum, sem hefur stutt aukna alþjóðahyggju og fjölmenningu, voru skotmörk hans.
Blaðamaðurinn Asne Seierstad, sem hefur skrifað bók um hryðjuverkin í Útey, segir að Norðmenn hafi aldrei þurft að horfast í augu við íslamska öfgastefnu. „Og við vitum ekki hvað hefði verið sagt ef sú hefði verið raunin.“
Lífsskoðanir Breiviks séu nú ekki lengur aðeins ræddar á meðal öfgamanna í skúmaskotum netheimanna, heldur séu þær á allra vitorði.
Norðmenn hafa enda ekki forðast að heyra á þær minnst. Þær eru ekkert feimnismál. Breivik fékk til að mynda að básúna lífsviðhorf sín fyrir dómi – og opnum tjöldum – í margar klukkustundir. Norðmenn telja að auðveldara sé að berjast gegn öfgahugmyndum sem þessum ef þær eru á allra vitorði.
Norski mannfræðingurinn Thomas Hylland Erikson bendir þó á að svo virðist sem flóttamannavandinn hafi gefið öfgahópum og skoðanabræðrum Breiviks byr undir báða vængi. Öfgarnar í norsku samfélagi hafi sjaldan verið skýrari. Hann segir að þeim sem deili skoðunum Breiviks og séu andsnúnir fjölmenningu af öllu tagi og leggist gegn auknum áhrifum íslamstrúar hafi fjölgað mikið. Þeir séu jafnframt sýnilegri en áður og fari ekki lengur í felur með skoðanir sínar.
„Ef 22. júlí 2011 var próf fyrir lýðræðið, þá tel ég að við höfum staðist það,“ segir Eskil.
„En þetta er ekki lokasigur. Við verðum að halda áfram að sameinast um lýðræðið.“