„Tíminn læknar ekki öll sár“

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. AFP

„Tíminn læknar ekki öll sár,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, í tilfinningaþrunginni ræðu í miðbæ Oslóar í morgun í tilefni þess að fimm ár eru í dag frá fjöldamorðunum í Osló og Útey.

Fjöldi fólks var kominn saman til að hlýða á Solberg fyrir framan stjórnarráðsbygginguna þar sem Anders Behring Breivik sprengdi sprengjur 22. júlí 2011 með þeim afleiðingum að átta manns létu lífið.

Frétt mbl.is: Norsk gildi höfðu sigur

Í kjölfarið hélt hann út í Útey, dulbúinn sem lögreglumaður, og hóf þra skothríð með þeim afleiðingum að 69 manns féllu. Ungliðahreyfing norska Verkamannaflokksins var þar við sumardvöl.

Markmið Breiviks með voðaverkunum var að útrýma kynslóð framtíðarstjórnmálamanna sem stuðla myndu að frekari framgangi jafnaðarstefnu og fjölmenningarsamfélags í Noregi.

Minningarathafnir fara fram víða í Noregi í dag. Erna Solberg, Mette-Marit krónprinsessa og Hákon krónprins lögðu í morgun í sameiningu blómkrans við stjórnarráðsbyggingar í miðborg Oslóar til minningar um fórnarlömbin.

Einnig fer fram guðsþjónusta í dómkirkjunni í Osló fyrir hádegi í dag.

Erna Solberg, Mette-Marit krónprinsessa og Hákon krónprins, lögði í sameiningu …
Erna Solberg, Mette-Marit krónprinsessa og Hákon krónprins, lögði í sameiningu blómkrans við stjórnarráðsbyggingar í miðborg Oslóar í morgun til minningar um fórnarlömbin. AFP

Einn myrkasti dagur í sögu Noregs

Solberg sagði í morgun að ummerki voðaverkanna væru enn sýnileg og áþreifanleg, þótt fimm ár væru liðin frá þeim.

„Það eru fimm ár síðan 77 manns voru myrtir. Það eru fimm ár síðan þessi sumardagur varð einn myrkasti dagur í sögu Noregs.“

„Þeir sem létu lífið verða alltaf þar. Tíminn læknar ekki öll sár,“ bætti hún við.

 Hún sagði að fimm ár liðu hratt í huga lítilla barna sem eru að alast upp, „en fyrir þá sem hafa misst einhvern, þá eru fimm ár ekkert.“

Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, og Mani Hussaini, leiðtogi ungliðahreyfingar …
Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, og Mani Hussaini, leiðtogi ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins. AFP

Þeir tala sama tungumálið

Hún tók dæmi um nokkra staði í heiminum þar sem hryðjuverkaárásir hafa átt sér stað á undanförnu ári og ræddi meðal annars um voðaverkin í Nice í síðustu viku.

„Við hugsum einnig til þeirra sem hafa orðið fyrir áhrifum vegna árásarinnar og fleiri árása. Hugmyndafræði hryðjuverkamannanna kann að vera ólík, en þeir tala sama tungumálið. Vopn og ofbeldi eru helstu verkfæri þeirra.“

Hún sagði að aðeins væri hægt að sigrast á hryðjuverkum með því að bjóða betri heim. Við ættum að leggja áherslu á það sem sameinaði okkur, vegna þess að hryðjuverkamennirnir vildu sundra okkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka