Vilja eyða upptökum af árásinni

Lögreglumenn í Nice.
Lögreglumenn í Nice. AFP

Borgaryfirvöld í Nice hafa hafnað beiðni saksóknaraembættisins í París um að eyða upptökum úr öryggismyndavélum af voðaverkunum í borginni í síðustu viku.

Saksóknarinn segir að tilgangurinn með beiðninni hafi verið að koma í veg fyrir „stjórnlausa útbreiðslu“ upptakanna. Því sé mikilvægt að eyða þeim sem allra fyrst.

Borgaryfirvöld í Nice telja hins vegar að upptökurnar geti nýst sem sönnunargögn í málinu.

Yfir áttatíu manns létu lífið þegar Túnisbúinn Mohamed Lahouaiej-Bouhlel ók stórum vörubíl inn í mannfjöldann á strandgötunni í Nice í síðustu viku. Fjölmenni var þar komið saman til þess að fagna þjóðhátíðardegi Frakka. 

Náðist árásin á öryggismyndavélar.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni.

AFP

„Þetta er í fyrsta sinn sem við erum beðin um að eyða sönnunargögnum,“ hafði franska dagblaðið Le Figaro eftir heimildarmanni sínum í stjórnkerfi Nice.

Hann benti á að borgaryfirvöld gætu átt yfir höfði sér ákæru ef þau eyddu upptökunum. Þeir sem hefðu aðgang að upptökunum hefðu jafnframt enga lagalega heimild til þess að eyða þeim.

Fram kemur í umfjöllun blaðsins að franska lögreglan og saksóknari vilji eyða upptökunum af virðingu við fórnarlömbin sem og til þess að koma í veg fyrir að herskáir íslamistar geti notað þær í áróðursskyni.

Lögreglan verið gagnrýnd

Franska lögreglan hefur sætt mikilli gagnrýni, sér í lagi af hálfu ráðamanna í Nice, fyrir að hafa ekki tryggt nægilega vel öryggi þeirra fjölmörgu sem komu saman í Nice þetta kvöld.

Franskir fjölmiðlar hafa greint frá því að upptökurnar úr öryggismyndavélum gætu hugsanlega sýnt hvernig öryggisgæslu lögreglunnar var háttað við strandgötuna.

Fjórir karlmenn og ein kona voru í gær ákærð í tengslum við málið. Þau eru sökuð um að hafa hjálpað Mohamed að undirbúa árásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert