Maðurinn sem lenti í hávaðarifrildi við Ali David Sonboly, sem myrti níu manns í þýsku borginni München í gær, segist ekki hafa verið hræddur við árásarmanninn. Hann segist ekki hafa vitað á þeirri stundu hvort Sonboly hafi skotið alvöru byssukúlum eða gúmmíkúlum.
Þýska dagblaðið Bild ræddi í dag við manninn, Thomas Salbey, sem er 57 ára gamall atvinnubílstjóri. Salbey myndaði árásarmanninn er hann var uppi á þaki bílastæðahúss í nágrenni við Olympia-verslunarmiðstöðina.
Frétt mbl.is: „Ég er þýskur!“
„Ég var að drekka bjór eftir vinnu og heyrði allt í einu skothvelli – fyrst við McDonald‘s – bam, bam, bam – þannig hljómaði það,“ segir hann.
„Síðan hljóp fólk út úr verslunarmiðstöðinni. Þetta gerðist beint fyrir neðan húsið okkar. Ég hélt í fyrstu að hann væri að skjóta með Kalashnikov-riffli.
Síðan leit ég niður af svölunum mínum og sá hvernig maðurinn komst upp á þak. Hann hafði hlaðið byssuna sína. Ég kastaði bjórflöskunni í átt að honum. Hún splundraðist á glerþakinu. En ég held að hann hafi ekki einu sinni heyrt það,“ segir Salbey.
Hann segist hafa hrópað „kunta“ og „ertu brjálaður“ að árásarmanninum. Hann hafi svarað: „Ég er þýskur“.
Salbey segir að árásarmaðurinn hafi í kjölfarið skotið í átt til sín, en ekki hitt.
„Ég fór strax í felur. En ég sá hvernig hann gekk rólegur á þakinu.“
Hann bætir við að lögreglan hafi ekki vitað að árásarmaðurinn var á þakinu þegar hún kom á vettvang. „Ég kallaði til þeirra: „Hann er uppi á þaki bílastæðahússins!“ Ég var ekki hræddur. Ég vissi ekki hvort þetta voru alvöru byssukúlur eða bara gúmmíkúlur.“