Það sem er vitað um árásina í München

Lögreglumenn standa fyrir utan Olympia-verslunarmiðstöðina þar sem skotárásin átti sér …
Lögreglumenn standa fyrir utan Olympia-verslunarmiðstöðina þar sem skotárásin átti sér stað. AFP

Fréttir af skotárásinni í München í gær hafa skýrst nokkuð í dag en lögreglan í borginni rannsakar enn málið og hefur kallað eftir því að almenningur sendi henni myndskeið, ljósmyndir og hljóðupptökur sem teknar voru meðan á árásinni stóð.

Enn er mikil öryggisgæsla í borginni og eru vopnaðir lögreglumenn áberandi.

Það sem er vitað um málið á þessari stundu, samkvæmt samantekt The Guardian:

  • Þýska lögreglan hefur borið kennsl á byssumanninn, hinn átján ára Ali Sonboly. Hann fæddist í München og var bæði þýskur og íranskur ríkisborgari.
  • Hann skaut níu manns til bana áður en hann svipti sig lífi. Flest fórnarlömbin voru á aldrinum þrettán til tuttugu ára. Þrjú fórnarlambanna voru konur og sex karlar.
  • 27 særðust og þar af liggja tíu, þar á meðal þrettán ára strákur, alvarlega særðir á sjúkrahúsi. Þýsk yfirvöld hafa varað við því að tala látinna gæti hækkað enn frekar.
  • Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði að þjóðin syrgði af einlægni hina látnu. Hún lofaði því að þýsk stjórnvöld kæmust til botns í því af hverju Sonboly lét til skarar skríða.
  • Sonboly hafði verið strítt í skóla. Hann þjáðist af þunglyndi og hafði gengist undir læknismeðferðir vegna þess, að sögn lögreglunnar. Svo virðist sem engar pólitískar hvatir hafi legið að baki gerðum hans.
AFP
  • Lögreglumenn leituðu í morgun í íbúðinni þar sem hann bjó með foreldrum sínum og fundu þar ekkert sem bendir til þess að hann hafi tengst hryðjuverkasamtökum. Þeir lögðu hins vegar hald á skjöl og bækur sem tengjast skotárásum, þar á meðal bók með titlinum „Af hverju drepa námsmenn?“
  • Lögreglan sagði að svo virtist sem Sonboly hefði brotist inn á facebookaðgang ungrar konu og hvatt þar, undir hennar nafni, fólk til þess að fjölmenna á McDonald's-staðinn í Olympia-verslunarmiðstöðinni klukkan fjögur síðdegis að staðartíma í gær. Sagði hann fólki að ókeypis matur yrði í boði.
  • Myndskeið náðist af Sonboly skjóta úr Glock-17-skammbyssu sinni af þaki bílastæðahúss við verslunarmiðstöðina. Myndskeiðið sýnir hann í hávaðarifrildi við annan mann, en Sonboly hrópar meðal annars: „Ég er þýskur!“
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert