Yfirheyra föður árásarmannsins

Kveikt á kertum utan við Olympia í dag. Á skiltinu …
Kveikt á kertum utan við Olympia í dag. Á skiltinu stendur: Af hverju? AFP

Þýska götublaðið Bild greinir frá því að lögregla yfirheyri nú föður táningsins sem myrti níu og særði 16, þar af þrjá lífshættulega, í München í gær. Réttarvísindateymi lögreglu gera nú húsleit í íbúðinni þar sem byssumaðurinn bjó ásamt foreldrum sínum, að sögn Bild í Maxvorstadt-hverfinu í borginni.

Nágrannar árásarmannsins hafa lýst honum fyrir þýskum miðlum sem „þöglum náunga“.

„Hann bjó við hliðina á mér,“ vitnar Bild í nágranna. „Vinur minn var í skóla með honum og sagði að hann væri frekar þögull náungi. Hann þekkti hann á myndböndunum af vettvangi.“

Annar nágranni hefur lýst honum sem „mjög, mjög indælum“.

„Ég get í alvöru ekki sagt neitt slæmt um hann.“

Fólk hefur drifið að vettvangi árásarinnar í dag með blóm …
Fólk hefur drifið að vettvangi árásarinnar í dag með blóm og kerti. AFP

Það sem vitað er

  • Níu hafa látist af skotsárum eftir árásina við Olympia-verslunarmiðstöðina í München í gær. Lögreglan hefur staðfest að 16 séu á spítala eftir árásina og þar af séu þrír í lífshættu.
  • Börn eru á meðal fórnarlambanna og staðfest hefur verið að 15 ára stúlka sé á meðal hinna látnu.
  • Þrátt fyrir að fyrst væri talið að um fleiri en einn árásarmann væri að ræða var aðeins um einn að ræða, 18 ára táningsdreng með tvöfaldan ríkisborgararétt – þýskan og íranskan.
  • Árásarmaðurinn skaut sig til bana og er því heildarfjöldi látinna tíu.
  • Hvatinn að baki árásinni er enn með öllu óljós að sögn lögreglu.
  • Áður en hann svipti sig lífi virðist árásarmaðurinn hafa átt í hávaðarifrildi við sjónarvott og öskrað: „Ég er þýskur!“
  • Angela Merkel mun funda með öryggisráði Þýskalands í Berlín í dag.
  • Lögregla mun halda blaðamannafund með frekari upplýsingum á hádegi að staðartíma í dag.
  • Almenningssamgöngur eru nú aftur komnar í gang í borginni eftir að hafa legið niðri í gær.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert