Sakar innanríkisráðherra um áreiti

Bernard Cazeneuve.
Bernard Cazeneuve. AFP

Lögreglukona í Nice, Sandra Bertin, hefur ásakað innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, um áreiti, en hún segir hann hafa reynt að fá sig til að breyta frásögn sinni, eftir hryðjuverkin í borginni á Bastilludaginn.

Bertin hafði umsjón með eftirlitsmyndavélum í borginni og segir að sér hafi verið skipað að staðfesta viðveru tveggja sveita frönsku þjóðlögreglunnar í Nice, kvöldið sem hryðjuverkin áttu sér stað, þrátt fyrir að hafa ekki séð þær.

Í samtali við franska blaðið Journal du Dimanche, segir hún sér hafa verið sagt af embættismanni frá innanríkisráðuneytinu að staðfesta að þjóðlögreglan hafi verið við sjávarsíðuna þegar árásin átti sér stað.

„Þjóðlögreglan var kannski þarna, en ég gat ekki séð hana á upptökunni,“ er haft eftir Bertin, sem segist hafa verið áreitt í klukkutíma af innanríkisráðherranum í gegnum síma.

Samkvæmt innanríkisráðuneytinu franska voru 64 liðsmenn þjóðlögreglunnar við sjávarsíðuna í Nice þetta kvöld, líkt og samið hafði verið um við borgaryfirvöld. Fréttaritari BBC í Frakklandi segir borgaryfirvöld í Nice telja að sumum þjóðlögreglumönnunum hafi þó verið skipt út fyrir lögreglumenn borgarinnar, sem voru minna vopnaðir og verr í stakk búnir til að grípa inn í og stöðva hryðjuverkamanninn.

Það er því talið að frönsk yfirvöld reyni nú að hylma yfir þessa staðreynd, en þau hafa legið undir harðri gagnrýni fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir árásina og var baulað á ráðherra á minningarathöfn um fórnarlömb árásarinnar.

Í síðustu viku neituðu yfirvöld í Nice beiðni frönsku hryðjuverkalögreglunnar um að eyða upptökum öryggismyndavéla á svæðinu. Er beiðnin sögð hafa verið lögð fram til að koma í veg fyrir að upptökurnar kæmust í dreifingu, en yfirvöld í Nice segja upptökurnar kunna að vera notaðar sem sönnunargögn.

Bernard Cazeneuve hefur neitað ásökununum um áreiti og segist ætla að leggja fram kæru fyrir meiðyrði. Frakklandsforseti, Francois Hollande, lýsti því yfir á föstudag að hann bæri fullt traust til Cazeneuve.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert