Skipulagði árásina í heilt ár

Margir hafa lagt blóm við verslunarmiðstöðina Olympia til minningar um …
Margir hafa lagt blóm við verslunarmiðstöðina Olympia til minningar um fórnarlömb árásarinnar. AFP

David Sonboly sem hóf skotárás í verslunarmiðstöðinni Olympia í München á föstudag hafði skipulagt árásina í ár. Þetta kom fram á blaðamannafundi þýsku lögreglunnar í morgun. Níu manns létust í árásinni.

Á blaðamannafundi lögreglunnar í Bæjaralandi í morgun kom fram að Sonboly hafi keypt skammbyssuna, sem hann notaði í árásinni, ólöglega á netinu. Sonboly framdi að lokum sjálfsmorð eftir að hafa gert árásina í verslunarmiðstöðinni.

Robert Heimberger, yfirmaður glæpadeildar lögreglunnar í Bæjaralandi, sagði að Sonboly hefði heimsótt bæinn Winnenden á síðasta ári, þar sem gerð var skotárás í skóla árið 2009. Tók hann þar ljósmyndir.

Ekkert bendir til þess að skotárásin hafi eitthvað með pólitískar skoðanir Sonboly að gera, sagði lögregla á blaðamannafundinum í morgun. Eins kom fram á fundinum að foreldrar Sonbolys hafi verið í miklu áfalli og að ekki hafi verið hægt að yfirheyra þau vegna málsins. Þá sagði lögregla Sonboly hafa verið mikinn aðdáanda fyrstu persónu byssutölvuleikja.

Þrír þeirra sem létust voru frá Kósovo, þrír frá Tyrklandi og einn frá Grikklandi. Sjö hinna látnu voru á unglingsaldri. 35 til viðbótar særðust í árásinni. Að sögn lögreglu var árásinni ekki beint sérstaklega gegn fórnarlömbum árásarinnar.

BBC greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert