Erdogan á leið til Rússlands

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, fer til Rússlands í næsta mánuði þar sem hann mun funda með Vladimir Pútín, forseta Rússlands. Er þetta fyrsti fundur forsetanna í eigin persónu en þeir hafa áður rætt saman í síma.

Tyrkir og Rússar áttu í hatrömmum deilum á síðasta ári þegar tyrkneskir hermenn grönduðu rússneskri herþotu nálægt Sýrlandi á síðasta ári.

Að sögn tyrknesks embættismanns var ákveðið að forsetarnir myndu funda fyrir G20 ráðstefnuna sem fram fer í Kína í september og fer Erdogan því til Sankti Pétursborgar 9. ágúst.

Aðstoðarforsætisráðherra Tyrklands, Mehmet Simsek, er nú staddur í Rússlandi þar sem hann fundar með kollega sínum Arkady Dvorkovich. Var það gert til þess að bæta sambandið milli landanna tveggja

Gröndun þotunnar skapaði mikla spennu milli Tyrkja og Rússa. Kallaði Pútín hana „rýting í bakið“ og sakaði Erdogan um að tengjast ólöglegum olíuinnflutningi hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams.

Þá greindi skrifstofa Pútíns frá því í síðasta mánuði að Erdogan hefði beðið forsetann afsökunar og stjórnvöld í Rússlandi afléttu viðskiptabanni gegn Tyrklandi. Þá var ferðabanni rússneskra ferðaskrifstofa til Tyrklands einnig aflétt en það hafði haft mjög neikvæð áhrif á ferðamannaiðnaðinn í Tyrklandi sem treystir að miklu leyti á komu Rússa.

Þá hringdi Pútín í Erdogan fyrr í þessum mánuði til þess að lýsa yfir stuðningi við hann í kjölfar valdaránstilraunarinnar í landinu.

Pútín fundar með Erdogan í næsta mánuði.
Pútín fundar með Erdogan í næsta mánuði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert