Mennirnir sem tóku hóp fólks í gíslingu í kirkju í Frakklandi í morgun voru báðir skotnir til bana. Einn gísl var drepinn og annar berst fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi. Sá sem er látinn, prestur kirkjunnar, var skorinn á háls að sögn lögreglu.
Alls var fimm manns haldið í gíslingu í kirkjunni, sem er í bænum Saint-Etienne-du-Rouvray, nálægt borginni Rouen í Normandí.
Árásarmennirnir komust inn í kirkjuna í gegnum bakdyr og tóku prestinn, tvær nunnur og tvo kirkjugesti í gíslingu á meðan morgunmessan stóð yfir. Að sögn talsmanns innanríkisráðuneytis Frakklands voru árásarmennirnir skotnir til bana þegar þeir gengu út úr kirkjunni. Þá var hún umkringd lögreglumönnum.
Þrír gíslanna komust undan ómeiddir.
Forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, tjáði sig um málið á Twitter og sagði gíslatökuna „villimannslega árás“.
„Allt Frakkland og allir kaþólikkar eru nú særðir. En við stöndum saman,“ skrifaði ráðherrann.
Ástæður gíslatökunnar eða nöfn árásarmannanna liggja ekki fyrir en rannsókn málsins er hafin.
Aðeins eru tæpar tvær vikur síðan Mohamed Lahouaiej Bouhlel drap 84 með því að aka vörubifreið inn í hóp fólks sem var að fagna bastilludeginum í Nice. Var það þriðja stóra árásin á franska borgara á átján mánuðum og lýsti Ríki íslams yfir ábyrgð.
Þá hafa samtökin lýst ábyrgð á tveimur árásum í Þýskalandi síðustu daga og skapað aukna spennu og hræðslu í Evrópu.
Eftir árásina í Nice framlengdu frönsk stjórnvöld neyðarlögin í landinu og veita þau lögreglu aukið vald til þess að leita á fólki og heimilum.