Ríki íslams lýsir yfir ábyrgð

Francois Hollande, forseti Frakklands, ásamt innanríkisráðherranum Bernard Cazeneuve, ásamt bæjarstjóra …
Francois Hollande, forseti Frakklands, ásamt innanríkisráðherranum Bernard Cazeneuve, ásamt bæjarstjóra Saint-Etienne-du-Rouvray Hubert Wulfranc. AFP

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á gíslatökunni í Frakklandi í morgun og kölluðu árásarmennina sem drápu prest á níræðisaldri hermenn sína. Eins og greint hefur verið frá laumuðust tveir menn inn í kirkju í smábænum Saint-Etienne-du-Rouvray, vopnaðir hnífum, og héldu þeir fimm manns þar í gíslingu. Þeir voru síðan skotnir til bana af lögreglu.

Forseti Frakklands, Francois Hollande, hét því í dag að heyja stríð gegn Ríki íslams „eins og hægt er innan laga“.

„Við horfumst nú í augu við hóp, Daesh, sem hefur lýst yfir stríði gegn okkur,“ sagði Hollande og notaði annað nafn yfir Ríki íslams.

„Við þurfum núna að heyja stríð eins og við getum, en innan hins lagalega ramma. Það er vegna þess að við erum lýðræði,“ sagði Hollande en hann var kominn til Saint-Etienne-du-Rouvray aðeins nokkrum klukkustundum eftir árásina.

Eins og fyrr segir lét einn gísl lífið en annar berst fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi. Þrír aðrir gíslar sluppu ómeiddir.

Hollande sagði að árásarmennirnir hefðu sagst tilheyra Ríki íslams og kallaði árásina „andstyggilega hryðjuverkaárás“.

„Kaþólskt samfélag hefur orðið fyrir árás en þetta kemur öllum frönskum borgurum við,“ sagði Hollande.

Kirkjan stendur í bænum Saint-Etienne-du-Rouvray
Kirkjan stendur í bænum Saint-Etienne-du-Rouvray AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert