Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa sent frá sér myndskeið sem þau segja sýna mennina tvo sem myrtu prest í franskri kirkju sverja Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga samtakanna, hollustu sína.
Myndskeiðið, sem birt var af fréttaveitu Ríkis íslams, virðist sýna tvo unga menn með fána hryðjverkasamtakanna og þylur annar þeirra upp texta á arabísku með sterkum hreim. Textinn er sagður hollustueiður gagnvart Abu Bakr al-Baghdadi.
Mennirnir, sem kalla sig Abu Omar og Abu Jalil al-Hanafi, haldast í hendur á meðan þeir sverja eiðinn.
Ríki íslams hefur lýst árásinni í kirkjunni frönsku á hendur sér, en meðan á henni stóð var 86 ára prestur myrtur. Árásarmennirnir skáru hann á háls.
Samkvæmt fréttaveitunni Amaq voru mennirnir tveir „hermenn Ríkis íslams, sem frömdu árásina til að svara kalli um árásir gegn krossfarabandalaginu.“