Lögregla í Pakistan hefur hafið morðrannsókn á dauðsfalli konu en eiginmaður hennar segir hana hafa verið fórnarlamb svokallaðs heiðursmorðs.
Samia Shahid var 28 ára gömul. Hún bjó í Bradford í Englandi en lést í síðustu viku í norðurhluta Punjab.
Lögregla telur að dauða hennar hafi borið að með saknæmum hætti en fjölskylda hennar neitar því. Enginn hefur verið handtekinn en lögregla rannsakar nú föður hennar og vill ræða við fyrri eiginmann Shahid, Choudhry Shakeel, en hann er lagður á flótta.
Fyrri frétt mbl.is: Rannsakak meint heiðursmorð
Syed Mukhtar Kazam telur að eiginkona sín hafi verið drepin af fjölskyldu sinni í Pakistan þegar hún kom þangað í heimsókn. Telur hann að fjölskyldan hafi verið mótfallin hjónabandi hennar og sín. Fjölskyldan hafi hótað henni lífláti áður en hún fór til Pakistans.
Lögreglustjórinn Mujahed Akbar Khan sagði dauðsfallið í rannsókn og að fyrrverandi eiginmanns Shahid væri nú leitað. Gerði hann ráð fyrir að hann yrði handtekinn í dag eða á morgun.
Þá sagðist hann vera í stöðugu sambandi við bresk yfirvöld vegna málsins.
Blaðamaður BBC í Islamabad segir að búið sé að kryfja líkið og að niðurstöðu sé nú beðið.