Franskir rannsóknarlögreglumenn hafa nú borið kennsl á hinn manninn sem hélt fólki í gíslingu í kirkju í Frakklandi í fyrradag. Mennirnir voru tveir og drápu þeir prest í kirkjunni með því að skera hann á háls.
Seinni árásarmaðurinn hefur verið nefndur sem Abdel Malik Petitjean. Hann var nítján ára gamall eins og hinn árásarmaðurinn, Abel Kermiche. Þeir voru báðir skotnir til bana af lögreglu. Samkvæmt frétt AFP var Petitjean þekktur af lögreglu eftir að hafa reynt að komast til Sýrlands, rétt eins og Kermiche.
Petitjean, var frá Austur-Frakklandi og hafði verið á lista yfirvalda yfir líklega öfgamenn. Lögregla hafði leitað hans síðustu daga.
Kermiche og Petitjean héldu fimm manns í gíslingu í þrjár klukkustundir. Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni og hafa birt myndband sem á að sýna mennina tvo lýsa yfir hollustu við samtökin.