Koch bræður hvattir til að styðja Trump

Donald Trump ávarpar hóp stuðningsmanna í Scranton í Pennsylvaniu. Kosningasjóðir …
Donald Trump ávarpar hóp stuðningsmanna í Scranton í Pennsylvaniu. Kosningasjóðir Trump fara stöðugt minnkandi og væn fjárinnspýting frá Koch bræðrunum kæmi sér því vel. AFP

Hópur efnaðra stuðningsmanna Repúblikanaflokksins hvetur nú milljarðamæringana og bræðurna Koch til að stíga af hliðarlínunni og lýsa yfir stuðningi við Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana. Bræðurnir Koch  hafa gagnrýnt Trump harkalega,  en stuðningsmenn flokksins hvetja þá nú til að styðja hann, ef þeir vilja geta haft áhrif á Trump fari svo að hann verði kjörinn forseti í kosningunum í nóvember nk.

Reuters fréttastofan segir þá sem þrýsta á bræðurna, tilheyra hópi hinna 700 manna Koch samtaka. Þeir Charles og David Koch hafi verið hvattir símleiðis og í gegnum tölvupóst til að styðja Trump, en á laugardag hefst í Colorado sérstakur stuðningsmannafundur samtakanna sem haldinn er annað hvert ár.

Ákveði Koch bræðurnir að lýsa yfir stuðningi við Trump þá væri um algjöran viðsnúning að ræða, en þeir hafa gagnrýnt Trump harkalega og sagt orðræðu hans um innflytjendur, verndartolla og viðskipti vera  afskræmingu. Þeir hafa áður lýst því yfir að þeir muni ekki skipta sér af forsetakosningabaráttunni að þessu sinni, heldur muni þeir beina athygli sinni að öldungadeildinni.

Trump hefur sjálfur heitið því að hann ætli sé ekki að verða strengjabrúða annarra hljóti hann kosningu.

Stuðningur Koch gæti bjargað kosningasjóði Trumps

Varaforsetaefni Trump, Mike Pence, hefur hins vegar lengi verið innundir hjá Koch bræðrum og kosningasjóðir Trump, sem fara ört minnkandi gætu þegið væna fjárinnspýtingu. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna kosningabaráttu Trump gegn Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda demókrata, næstu mánuði geti numið einum milljarði dollara.

„Ég tel það ekki ómögulegt, eða handan hins mögulega að Koch bræðurnir blandi sér í baráttuna á einhverjum tímapunkti,“ hefur Reuters fréttastofan eftir Dough Deason, sem tilheyrir tengslaneti bræðranna.

Deason, sem hefur fundað með Trump og starfsfólki kosningabaráttu hans, segist ásamt föður sínum milljarðamæringnum Darwin Deason, hafa skrifað Charles Koch og mælst til þess að hann hitti Trump.

„Við teljum mjög mikilvægt að Donald sannfæri Charles um að hann sé rétti maðurinn í starfið og að Charles nái að hafa áhrif á stefnumál Donalds,“ sagði Deason. „Hann (Charles Koch) gaf til kynna að hann ætli að bíða og sjá. Hann afskrifi það ekki gjörsamlega.“

Hæstaréttardómarar sitja lengur en nokkur forseti

Meðlimir samtakanna eru margir þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að áhrifa íhaldssamra skoðana  Koch bræðranna gæti hjá Trump á meðan hann er enn að fínpússa stefnumál sín og áður en hann fer að hugleiða hvaða ráðherra hann vilji sjá í stjórn sinni.

Margar efnuðustu íhaldssömu fjölskyldur Bandaríkjanna tilheyra Koch samtökunum, sem hafa úr meira fé að spila en bæði Repúblikanaflokkurinn og Demókrataflokkurinn, en árgjaldið samtakana eitt og sér nemur 100.000 dollurum á ári.

Samtökin eru þó á engan hátt einsleit, þó að flestir meðlimir hafi á fundi samtakanna í Palm Springs í janúar verið harðlega andsnúnir Trump. Nú þegar hann hefur hins vegar hlotið útnefningu flokksins, eru margir þeirrar skoðunar að það sé lítið annað í stöðunni en að styðja hann.

Fjölmiðlamógúllinn Stanley Hubbard, er einn þeirra.  Hann sagði sínar stærstu áhyggjur vera að demókrötum gæfist færi á að velja dómara til hæstaréttar.

„Mörg okkar greiða Koch bræðrum háar fjárhæðir og við búumst við því að þeir geri það sem þeir geti til að sjá til þess að réttir hæstaréttadómarar verði fyrir valinu,“ sagði Hubbard. „Hæstaréttardómarar sitja lengur en nokkur forseti.“

Hann kvaðst vonast til þess að fundurinn um helgina fái bræðurna til að endurskoða afstöðu sína til Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert