Bróðir pakistönsku samfélagsmiðlastjörnunnar Qandeel Baloch kyrkti hana eftir að vinur hans hafði strítt honum vegna hegðunar hennar. Þetta segir móðir systkinanna.
Bróðirinn, Muhammad Wasim, er sagður hafa framið svokallað heiðursmorð, en slík ódæði eru tíð í Pakistan. Morðin eru framin til að vernda heiður fjölskyldunnar og fórnarlömbin eru iðulega stúlkur og konur.
Frétt mbl.is: „Ætti að vera skotinn á færi“
Baloch var myrt fyrr í þessum mánuði. Hún skaust upp á stjörnuhimininn fyrir að birta sjálfsmyndir og myndbönd af sér á samfélagsmiðlum. Mörgum þótti það ögrun í landi þar sem flestir eru múslimar. Morðið hefur vakið heimsathygli og beint kastljósinu að heiðursmorðum, aðgerðaleysi stjórnvalda og vöntun á bættri löggjöf og eftirfylgni.
Móðir Baloch, Anwar Wai, grætur þegar hún ræðir um morðið á dóttur sinni við fréttamann AFP-fréttastofunnar.
„Hann drap systur sína eftir að hafa verið strítt af vinum sínum. Þeir reittu hann til mikillar reiði og sögðu að hún kallaði skömm yfir fjölskylduna,“ segir Anwar Wai.
Fjölskyldan er stór og býr í litlu húsi með moldargólfum. Hún er sárfátæk og stólaði á Baloch fjárhagslega. Nú veit hún ekki hvernig þau komast af án hennar.
„Hún var ótrúleg dóttir. Ég á engin orð sem lýsa henni nógu vel. Hún sá um okkur fjárhagslega mun frekar en synir okkar,“ segir móðirin. Hún hefst nú við í húsi sem Baloch átti í Multan. „Hún hringdi í okkur fjórum til fimm sinnum á dag. Ef hún gat ekki hringt vegna vinnu sinnar bað hún okkur afsökunar síðar.“
Ríkisstjórn Pakistans hefur heitið því að leggja fljótlega fram lagafrumvarp sem taki á heiðursmorðum af meiri festu en nú er gert. Sömuleiðis á frumvarpið að taka á nauðgunum. Vonast er til þess að fljótlega verði hægt að greiða atkvæði um frumvarpið á pakistanska þinginu.
Á hverju ári eru framin um 1.000 heiðursmorð í Pakistan.
Gerendur í slíkum málum eru yfirleitt ættingjar kvennanna. Þeir fara sjaldan í fangelsi því samkvæmt hefðum geta þeir hlotið náð fyrir augum annarra ættingja kvennanna.
Meðal þess sem Baloch var gagnrýnd fyrir var að bjóðast til þess að dansa og fækka fötum fyrir pakistanska landsliðið í krikket. Þá klæddist hún einnig fjólubláum kjól á valentínusardaginn sem þótti að einhverra mati ögrandi.
Baloch var líkt við Kim Kardashian í heimalandi sínu. Af mörgum var hún talin valdeflandi fyrirmynd í landi þar sem konur hafa barist fyrir lágmarksréttindum áratugum saman.