Franskri lögreglu barst ábending sem varaði við öðrum gíslatökumannanna, sem myrtu prest í kirkju í Saint-Etienne-du-Rouvray í útjaðri Rúðuborgar í Frakklandi á þriðjudag.
Ábendingin barst erlendis frá og fylgdi mynd af manninum, Abdel Malik Nabil Petitjean með. Lögregla náði hins vegar ekki að bera kennsl á manninn, þrátt fyrir að hann hafi verið settur á lista yfir grunaða hryðjuverkamenn fyrir innan við mánuði, eftir að hafa reynt að ferðast til Sýrlands.
Franska leyniþjónustan segir tyrknesk yfirvöld ekki hafa gefið sér upplýsingar um manninn fyrr en 15 dögum eftir að tyrknesk lögregla stöðvaði hann á leið til Sýrlands og hafði hann þá snúið aftur til Frakklands. Náðu frönsk yfirvöld því aldrei í Petitjean, en um 10.000 manns eru á lista yfir grunaða hryðjuverkamenn í landinu og segja yfirvöld ómögulegt að fylgjast náið með hverjum og einum þeirra.
Skilríki Petitjean fundust á heimili hins árásarmannsins, Abed Kermiche, en upplýsingar um símasamskipti þeirra benda til þess að þeir hafi nýlega kynnst. Það er því líklegt að árásin hafi verið fyrirskipuð af öðrum, en nýlegt myndband sem Ríki íslams sendi frá sér er sagt sýna mennina sverja leiðtoga hryðjuverkasamtakanna hollustu sína.
The Guardian segir móðurPetitjean ekki hafa trúað því að sonur sinn hafi verið viðriðinn voðaverkið í kirkjunni fyrr en DNA sýni skar úr um það. „Nei, nei, nei. Það er ómögulegt. Ég þekki son minn, hann er ljúfur. Ég hef ekki skapað skrímsli“, sagði hún í samtali við BFMTV. „Hann talaði aldrei um Ríki íslamds ... við erum jákvætt fólk, við tölum um góða hluti.“
Þrír ættingjar Petitjean hafa verið yfirheyrðir og hefur lögregla leitað á heimili fjölskyldu hans, en ekkert fundist sem tengir fjölskyldumeðlimi við morðið.