Gæti verið refsað fyrir sjálfsvígstilraun

Chelsea Manning.
Chelsea Manning. Brendan Smialowski

Sjálfsvígstilraun Chelsea Manning gæti orðið til refsiþyngingar, en hún afplánar nú 35 ára dóm í herfangelsi, fyrir að hafa lekið stolnum gögnum til Wikileaks.

Fyrr í þessum mánuði var greint frá því að Manning hefði verið flutt á sjúkrahús eftir sjálfvígstilraun, sem lögfræðingar hennar staðfestu. Er tilraunin nú rannsökuð, en hún gæti falið í sér þrenns konar brot, m.a. hindrun starfa fangavarða og hótanir.

Frétt mbl.is: Sjálfsmorðstilraun Manning staðfest

Verði hún ákærð fyrir brotin gæti það orðið til níu ára viðbótar við dóm hennar og færslu í öryggisfangelsi, auk þess sem Manning gæti þurft að afplána afgang dómsins í einangrun. Þá gæti það haft áhrif á möguleika hennar á reynslulausn síðar.

Bandarísku réttindasamtökin American Civil Liberties Union gagnrýna hugsanlega refsingu vegna sjálfsvígstilraunarinnar í yfirlýsingu sem þau sendu frá sér. Í henni segir að bandarísk stjórnvöld hafi lengi vitað af vanlíðan Chelsea, eftir að henni var neitað um læknisaðstoð í tengslum við kynleiðréttingu sína, en Chelsea var áður Bradley Manning.

„Nú þegar Chelsea er þyngra haldin af þunglyndi en hún hefur nokkurn tíma verið síðan hún var handtekin, ætla stjórnvöld að refsa henni fyrir þjáningarnar. Það er óforsvaranlegt og við vonum að rannsókninni verði hætt undir eins og að hún fái þá læknisaðstoð sem hún þarf til að ná sér.“

The Guardian segir Bandaríkjaher ekki hafa svarað fyrirspurnum um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert