Í lífshættu við leit að pokémonum

Fólk um allan heim leitar að Pokémonum.
Fólk um allan heim leitar að Pokémonum. AFP

Hópur táninga varð næstum því öldum að bráð er hann var við leit að pokémonum á rifi í Somerset í Bretlandi. Þungar öldur skullu á ströndinni á háflóði í gærkvöldi og komst unga fólkið hvorki lönd né strönd.

Unglingarnir höfðu farið út á Birnbeck-eyju í leit sinni að kvikindunum í farsímaleiknum vinsæla, Pokémon Go. Eyjan er í raun rif rétt úti fyrir ströndinni sem ekki er fært út í þurrum fótum nema á fjöru. Á háflóði var áður hægt að komast þangað á brú en sú er gömul og ekki örugg. 

Táningarnir voru því strand úti í eyjunni og þurfti strandgæslan að koma þeim til aðstoðar. Þegar björgunarlið kom á staðinn höfðu tveir úr hópnum vaðið út í vatnið, sem hækkaði óðfluga. Náði vatnið þeim að bringu er þeim var bjargað segir í frétt Guardian um málið.

Mikill viðbúnaður var á svæðinu vegna málsins. Allt fór þó vel að lokum og enginn slasaðist.

Chris Lyons, einn úr björgunarhópnum, segir við Guardian að eins gaman og það sé að sjá fólk fara út og hreyfa sig í leit að pokémonum verði allir að passa sig. 

Hann segir flæða hratt að á svæðinu, á aðeins nokkrum sekúndum fari þurrt land undir sjó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert