Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, sagðist í dag myndu íhuga að setja tímabundið bann við erlendri fjármögnun moska. Hvatti hann til þess að tekin yrði upp ný nálgun á samskipti við íslam í kjölfar raðar hryðjuverkaárása í landinu.
Valls, sem hefur sætt gagnrýni vegna meintra öryggisbresta, viðurkenndi einnig að mistök hefðu átt sér stað, sem leiddu til þess að einn árásarmanna, sem réðust inn í kirkju og myrtu prest á þriðjudag, hefði verið undir rafrænu eftirliti, þ.e. með ökklaband.
Í viðtali við dagblaðið Le Monde, sagði Valls að hann væri opinn fyrir þeirri hugmynd að taka fyrir erlenda fjármögnun moskuframkvæmda, í einhvern tíma. Þá kallaði hann eftir því að imamar fengju „þjálfun í Frakklandi, ekki annars staðar.“
Forsætisráðherrann sagði að innanríkisráðherrann Bernard Cazeneuve ynni að „nýju módeli“ hvað varðaði nálgun Frakklands gagnvart íslam. Hann sagði ekkert rúm í Frakklandi fyrir salafisma, sem er róttæk útgáfa íslam.
Í Frakklandi eru fleiri en 2.000 moskur, en um 5 milljónir múslima búa í landinu. Sumar þeirra hafa verið fjármagnaðar af Sádi-Arabíu og fleiri ríkjum.